Súkkulaðiát minnkar líkur á heilablóðfalli

Neysla á 60 grömmum af súkkulaði á viku hjá karlmönnum …
Neysla á 60 grömmum af súkkulaði á viku hjá karlmönnum dregur úr líkum á heilablóðfalli um 17%.

Á sænska vefnum The Local er greint frá niðurstöðum rannsókna sem sýna að neysla karlmanna á 60 grömmum á súkkulaði á viku dregur úr líkunum á heilablóðfalli um 17%.

Rannsóknin var gerð á vegum sænsku Karolínsku-stofnunarinnar og voru niðurstöður hennar birtar í gær.

„Aðrar rannsóknir hafa miðað að því hvernig neysla súkkulaðis geti hjálpað í tilfelli hjartasjúkdóma en þetta er fyrsta rannsóknin sem sýnir að súkkulaðineysla dregur úr líkunum á heilablóðfalli hjá karlmönnum,“ sagði Susanna C. Larsson, forsvarsmaður rannsóknarinnar, við blaðamenn í dag.

Ekki skiptir máli hvort um dökkt eða ljóst súkkulaði er að ræða.

Vísindamenn hafa enn ekki getað sýnt fram á af hverju þetta magn af súkkulaði hefur ofangreind áhrif, en það er þó talið hafa eitthvað með magn andoxunarefna, sem finnast í súkkulaði, að gera.

37.000 karlmenn rannsakaðir

Rannsóknin náði til 37.000 karlmanna á aldrinum 49-75 ára og voru þeir spurðir um súkkulaðineyslu sína síðustu tíu árin. Síðan var sjúkdómasaga þeirra skoðuð og borin saman við neysluna.

Í fyrra voru niðurstöður úr sambærilegri rannsókn á konum kynntar sem sýndu svipaðar niðurstöður.

Þá voru 33.000 konur rannsakaðar og komust vísindamenn þá að því að minni líkur voru á heilablóðfalli hjá þeim konum sem borðuðu hvað mest súkkulaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert