Í tilefni þess að fimm ár eru síðan 3G-tæknin nam land á Íslandi ætlar Síminn að sýna að nýju auglýsinguna með Jesú og Júdas sem frumsýnd var 3. september fyrir 5 árum þegar 3G var tekið í notkun.
Aðeins 5 ár eru liðin frá því að Íslendingar upplifðu þá byltingu sem fólst í 3G-tækninni með 3G-væðingu Símans. Hinn 3. september árið 2007 var í fyrsta sinn hægt að hringja myndsímtal og nýjungin var kynnt með eftirminnilegum hætti í spaugilegum samskiptum Júdasar og Jesú í auglýsingaherferð Símans.
Fjölmiðlar gerðu herferðinni góð skil og áhugaverð umræða varð um hana en grínið var allt á kostnað Júdasar, sem leikinn var af Jóni Gnarr. Við upphaf 3G voru sendarnir um 100 talsins og þöktu höfuðborgarsvæðið og Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Nú eru sendarnir margfalt fleiri og nær 3G-kerfið til rúmlega 90% af landinu öllu en auk þess nær 3G-langdræga kerfi Símans langt út á miðin. Þegar 3G-tæknin var tekin í notkun bauð hún upp á 2 Mb/s hraða og hefur sá hraði margfaldast til dagsins í dag.
Það sem þykir sjálfsagt í dag, svo sem að horfa á fréttir í símanum var ekki hægt fyrr en 3G-kerfið kom til skjalanna. Tilkoma snjallsímanna jók notkunina á tækninni til muna og eru „öppin” nú orðin mörgum ómissandi og allir þeir möguleikar sem þessi tækni færir fólki beint í símann. Síminn mun í tilefni af 5 ára afmælinu færa viðskiptavinum sínum afmælisgjöf og er hún sú að þeir geta nota netið í símanum um helgina án endurgjalds. Gjöfina má nýta frá miðnætti á föstudagskvöld til miðnættis á sunnudag.
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans: „Viðbrögðin við 3G voru ótrúleg og Síminn hefur upplifað byltingu í því hvernig lífstíll fólks hefur breyst síðustu 5 ár með tilkomu símtækja sem eru svo miklu meira en bara sími. Íslendingar kunna svo sannarlega að tileinka sér nýja tækni og nýta sér kosti þess að búa í landi sem er framarlega í fjarskiptatækninni. Til marks um það þá eru vel yfir 150 þúsund notendur á 3G-kerfum á Íslandi í dag. Þessu vill Síminn fagna og að viðskiptavinir njóti góðs af.“
Þeir sem vilja aftur berja auglýsinguna með Jesú og Júdas augum í sjónvarpi, sem frumsýnd var 3. september fyrir 5 árum þegar 3G var tekið í notkun, geta fylgst með á laugardag en þá verður hún endursýnd í auglýsingatíma beggja sjónvarpsstöðvanna fyrir fréttir.