Menn eru ekki eina dýrategundin sem er hrifin af græjum. Dýrahirðar í Kanada og Bandaríkjunum leyfa nú öpum að spreyta sig í spjaldtölvum. Og árangurinn kemur á óvart.
Verkefnið sem nær til 12 dýragarða í löndunum tveimur heitir „app fyrir apa“ og hafa órangútar fyrstir apa fengið að prófa sig áfram á spjaldtölvunum.
„Við höfum komist að því að líkt með menn finnst öpunum gaman að snerta skjálinn, horfa á myndbönd með David Attenborough til dæmis og að skoða önnur dýr og aðra órangúta,“ segir Richard Zimmerman, stofnandi verkefnisins.
Tvisvar sinnum í viku fá aparnir aðgang að spjaldtölvunum. Þeir eyða 15-30 mínútum í einu í að skoða margskonar öpp, allt eftir því hversu lengi þeir halda athyglinni.
Aparnir hafa mestan áhuga á öppum fyrir börn sem m.a. kenna teikningu, tónlist og að leggja hluti á minnið.
„Þetta er eins og að sýna börnum bækur með flettiflipum,“ segir Zimmerman.
Órangútar eru taldir hafa greind á við ungt barn.