Ferðalangar í áratugi

Teikning af staðsetningu Voyager 1 og 2 við endimörk sólkerfisins.
Teikning af staðsetningu Voyager 1 og 2 við endimörk sólkerfisins. AFP

Geimfarið Voyager 1 sem skotið var á loft árið 1977 til að kanna reikistjörnurnar Júpíter og Satúrnus er nú í rúmlega 6,8 milljarða kílómetra fjarlægð frá sólinni og stefnir út úr sólkerfinu. Á morgun verða 35 ár liðin frá því að geimfarið lagði af stað frá jörðinni.

Þegar bandaríska geimvísindastofnunin NASA skaut Voyager 1 og 2 á loft árið 1977 vissi enginn hversu lengi þau ætti eftir að endast. Nú eru þau hins vegar elstu geimförin sem enn eru í notkun og þau mannanna verk sem eru fjærst jörðinni. Voyager 2 er í tæplega 14,5 milljarða kílómetra fjarlægð frá sólinni.

Voyager 1 svífur nú í gegnum rafgasský við endimörk sólkerfis okkar en bráðlega verður það fyrsta geimfarið frá jörðinni til að komast út í opinn geim á milli stjarna. Ekki er þó vitað hvenær það verður nákvæmlega. Það gæti verið spurning um daga, vikur, mánuði eða jafnvel ár.

Systurförin tvö búa hvort um sig yfir 68 kílóbita minni en til gamans má nefna að minnstu iPod-spilastokkar nútímans eru hundrað þúsund sinnum öflugri að þessu leyti.

Markmið Voyager-faranna var að rannsaka gasrisa sólkerfisins. Voyager 1 fór til Júpíters og Satúrnusar en Voyager 2 fór einnig fram hjá Úranusi og Neptúnusi. Upplýsingarnar sem þau sendu til baka til vísindamanna á jörðinni gjörbreyttu hugmyndum manna um sólkerfið og ekki síst um fylgitungl gasrisanna.

Nú þegar hátt í fjórir áratugir eru liðnir frá því að förin tvö lögðu fyrst upp í geimferð sína senda þau enn upplýsingar til baka til jarðar. Engir vísindamenn sinna verkefninu í fullri vinnu en um tuttugu hlutastarfsmenn greina gögnin sem ferðalangarnir víðförlu senda heim. Vegna hinna gríðarlegu fjarlægða tekur það merkið frá Voyager 1 um sautján klukkustundir að berast til jarðar.

Förin eru kjarnorkuknúin og er reiknað með að þau hafi nægt eldsneyti til að endast þeim til ársins 2020. Þegar að því kemur verða þau væntanlega fyrstu fulltrúar jarðarbúa til að hafa yfirgefið sólkerfið.

Mynd sem Voyager 1 tók af Satúrnusi veturinn 1980.
Mynd sem Voyager 1 tók af Satúrnusi veturinn 1980.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert