Big Mac og einn skammtur af frönskum? Í þessari máltíð eru 1.050 hitaeiningar. McDonald's hefur ákveðið að birta hitaeiningafjölda við allt á matseðli sínum á 14 þúsund veitingastöðum í Bandaríkjunum.
Þessi stærsta keðja hamborgarastaða í heiminum tilkynnti í dag að bráðlega yrði hitaeiningafjöldi birtur með öllu því sem finna má á matseðlunum. Innan skamms verður það gert að skyldu vestanhafs að birta slíkar upplýsingar en McDonald's ákvað að ríða á vaðið.
McDonald's Corp fer oft fyrir breytingum í sínum geira og því er talið að aðrir skyndibitastaðir muni fljótlega fylgja þessu fordæmi.
Þegar er þess krafist í Kaliforníu og New York-borg að birta hitaeiningafjölda á matseðlum en samkvæmt heilbrigðislögum sem fljótlega taka gildi verður öllum stórum veitingahúsum skylt að birta hitaeiningafjölda sem og aðrar næringarupplýsingar á matseðlum sínum.
Lögin ná til veitingastaða sem er að finna á fleiri en 20 stöðum, s.s. stórra skyndibitastaða.
Gildistöku laganna hefur nokkrum sinnum verið frestað og nú er talið að þau taki ekki gildi fyrr en eftir forsetakosningarnar 6. nóvember.
McDonald's mótmælti lagasetningunni harðlega á sínum tíma. Helstu rökin gegn lögunum voru m.a. þau að þau brytu í bága við friðhelgi einstaklingsins.