Indverjar ætla til Mars

Stormur á reikistjörnunni Mars.
Stormur á reikistjörnunni Mars. NASA

Geimferðastofnun Indlands tilkynnti í dag að landið ætlaði sér að senda á loft könnunarhnött sem myndi fara á sporbaug um Mars í nóvember á næsta ári. 

K. Radhakrishnan, formaður indversku geimrannsóknastofnunarinnar, ISRO, sagði á fréttamannafundi að hnettinum yrði skotið á loft 27. nóvember 2013. Dagsetningin helgaðist af því að þá væri Mars nær jörðu. Hnötturinn myndi rannsaka andrúmsloft og leita eftir ummerkjum lífs á yfirborði reikistjörnunnar. 

Radhakrishnan segir að förin gæti kostað um fimm milljarða rúpía, eða sem nemur um ellefu milljörðum króna. Geimferðaáætlun Indlands hefur náð góðum árangri á undanförnum árum, en hefur einnig verið gagnrýnd fyrir að draga að sér fjármuni sem gætu nýst í baráttu við fátækt á Indlandi.

Bandaríkin, Rússland, ESB, Japan og Kína hafa öll náð að senda geimför til Mars. Bandaríska vélmennið Forvitni er nú á yfirborði reikistjörnunnar og sendir myndir til jarðar. Er gert ráð fyrir að vélmennið muni starfa næstu tvö árin hið minnsta við rannsóknir á Mars. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka