iPhone 5 æðið breiðist út

Fyrstu iPhone 5 símarnir eru komnir í hendur nýrra eigenda í Ástralíu og í nokkrum ríkjum Asíu. Í Bandaríkjunum bíða kaupendur í ofvæni og í New York er komin löng röð fyrir utan verslanir Apple í borginni. Hver kaupandi má kaupa tvo síma og er mikil eftirvænting meðal þeirra sem bíða í röðinni. Eitthvað hefur borið á því í Asíu að þeir sem bíða í röðinni eru ekki endilega að bíða sjálfir eftir nýjum síma heldur fá þeir borgað fyrir að standa í röðinni gegn því að vera í stuttermabolum eða öðrum flíkum með auglýsingu á frá viðkomandi fyrirtæki, samkvæmt frétt AFP.

En það voru ekki allir sem keyptu nýja iPhone símann hjá Apple því í Hong Kong blómstruðu viðskipti með slíka síma á svarta markaðnum á götum úti.

Apple kynnti iPhone 5 þann 12. september og frá því byrjað var að taka niður pantanir á nýjum síma hefur starfsfólk fyrirtækisins ekki haft undan enda hafa nokkrar milljónir síma þegar verið pantaðar. 

Þetta þýðir að þeir sem hafa þegar pantað iPhone 5 síma þurfa að bíða í þrjár til fjórar vikur eftir símanum en þann 28. september mun Apple setja símann á markað í 22 löndum. Fyrir árslok er gert ráð fyrir því að hann verði seldur í um 100 löndum.

Bjarni Ákason, framkvæmdastjóri Eplis, segir að síminn komi hingað til lands í byrjun október. Hann sagði fyrr í vikunni í samtali við mbl.is að mikil eftirvænting væri hér á landi eftir nýja símanum en nokkur hundruð manns hafa þegar lagt inn pöntun hjá Epli.

Endanlegt verð er enn ekki komið á iPhone 5 í verslun Eplis en Bjarni telur að síminn muni kosta á bilinu 130.000-150.000 krónur.

Hörður Ágústsson, framkvæmdastjóri Maclands, tekur undir ummæli Bjarna og segist finna fyrir mikilli eftirvæntingu hér á landi.

„Ég held að það sé miklu meiri eftirspurn en umræðan hefur gefið til kynna,“ segir Hörður en ýmsir tæknibloggarar hafa lýst yfir ákveðnum vonbrigðum með kynningu Apple á þessari nýjustu útgáfu eins vinsælasta snjallsíma heims.

Spurður hvað síminn muni koma til með að kosta hjá Maclandi segir Hörður mjög erfitt að gefa upp verð að svo stöddu en telur að hann gæti kostað einhverstaðar á bilinu 169.990-209.990 krónur.

„Og er það bara nákvæmlega sama verð og í fyrra þegar hann kom fyrst,“ segir Hörður og bætir við að hann eigi ekki von á neinni verðlækkun fyrr en eftir áramót.

Anthony Shahir, 19 ára gamall  Ítali, var fyrstur til þess að fá afhentan iPhone 5 síma í París í morgun en hann hafði beðið fyrir utan verslun Apple, skammt frá Óperunni, frá því á miðvikudagsmorgun. Hann var glaður í bragði er hann ræddi við fréttamann AFP í morgun og sagði það ákveðinn létti að lestarferðin frá Róm hefði ekki verið til einskis. Hann varð fyrsti Ítalinn til þess að kaupa iPhone 4 árið 2010.

Beðið eftir iPhone 5 fyrir utan verslun Apple í SoHo-hverfinu …
Beðið eftir iPhone 5 fyrir utan verslun Apple í SoHo-hverfinu í New York í gærkvöldi Morgunblaðið/Einar Falur
iPhone 5 s
iPhone 5 s AFP
AFP
Svarta markaðsbrask með nýja símann
Svarta markaðsbrask með nýja símann AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert