Bréf sem Albert Einstein skrifaði til heimspekingsins Erics Gutkinds skömmu fyrir andlát sitt er nú til sölu á uppboðsvefnum eBay fyrir 3 milljónir bandaríkjadala. Einstein lýsir þar hugmyndinni um Guð sem afurð mannlegs veikleika. Biblían sé samsafn af fremur barnalegum goðsögnum.
Sú tilvitnun Einsteins, eins mesta hugsuðar vísindasögunnar, að Vísindi án trúar séu hölt en trú án vísinda blind er með fleygari tilvitnunum í vísindamenn. Þá má nefna að Einstein var gyðingur og var honum boðið að verða fyrsti forseti Ísraels við stofnun ríkisins 1948.
Barnalegar goðsagnir
Einstein fæddist árið 1879 og lést árið 1955.
Árið 1954 skrifaði hann Gutkind bréf og lýsti þá yfir efasemdum sínum um hugmyndina um Guð. Skrifaði Einstein þar meðal annars í lauslegri þýðingu að „Biblían sé samsafn af göfugum en þó frumstæðum goðsögnum sem séu engu að síður býsna barnalegar“.
Ónafngreindur safnari keypti bréfið árið 2008 og verður það boðið upp frá og með morgundeginum, mánudegi. Uppboðinu lýkur 18. október.
Það er Sydney Morning Herald sem segir frá málinu.