Kunnir þú að forrita tölvur færðu vinnu, einn, tveir og bingó! Svona er staðan hér á landi og víðast hvar í heiminum öllum. Það þykir á hinn bóginn ekkert sérstakt að kunna að nota tölvur, að nota algengustu tölvuforritin sem forritararnir hafa búið til gefur fólki afskaplega lítið forskot á vinnumarkaðinum. Í grunnskólum landsins er á hinn bóginn langmesta áherslan lögð á að kenna tölvunotkun en afar lítið er um kennslu í forritun. Miðað við splunkuný drög að nýrri námskrá er ljóst að svo verður áfram. „Það er verið að framleiða neytendur en ekki verið að kenna þeim á tæknina,“ segir Rakel Sölvadóttir, framkvæmdastjóri Skema, einkafyrirtækis sem býður upp á námskeið í tölvuforritun fyrir börn frá sjö ára aldri. Tölvunotkun sé eitt, tölvuforritun sé allt annað.
Skema er í samstarfi um forritunarkennslu í nokkrum grunnskólum, í Garðabæ og í Mosfellsbæ, fyrir 9-12 ára og í samstarfi við Fjölbraut í Breiðholti og Háskólann í Reykjavík (sem er hluthafi í Skema) um forritunarnám þar. Von er á fyrstu kennslubókinni, fyrir 8-12 ára, fyrir jól.
Rakel segir að forritun sé líkt og tungumál, nauðsynlegt sé að hefja kennslu í forritun snemma. „Ef maður nær þeim fyrir 12 ára aldur þá verður þeim þetta eðlislægt,“ segir Rakel. Tækniþróun undanfarin ára kalli á að tölvuforritun fái mun meira vægi í grunnskólum. Forritunarkennsla eigi ekki að hefjast seinna en þegar börnin eru 9-10 ára og kennslustundirnar þurfi að vera álíka margar og í ensku, dönsku eða öðrum erlendum tungumálum.
Staðan nú er allt önnur, tölvuforritun er í besta falli hornreka í grunnskólakerfinu, og lítið útlit fyrir að það breytist. Í viðmiðunarstundaskrá í nýrri aðalnámskrá fyrir grunnskóla frá 2011 kemur fram að vikulegur kennslutími í upplýsinga- og tæknimennt eigi að vera 2,68% af kennslutíma. Til samanburðar fá erlend tungumál (enska, danska eða annað norrænt tungumál) 10,27% af kennslutímanum. Í drögum að greinanámskrá fyrir upplýsinga- og tæknimennt er afar lítið fjallað um forritun en aðaláherslan lögð á að kenna nemendum að nýta sér upplýsingatækni.
Allt er þetta góðra gjalda vert, að mati Rakelar, en hún gagnrýnir á hinn bóginn harðlega að í greinanámskránni sé ekkert fjallað um forritun. Þetta séu aðskildir hlutir, að halda því fram að upplýsingatæknimennt, eins og hún birtist í greinanámskránni, sé það það sama og forritun sé eins og að segja að arkitektúr sé það sama og húsasmíði. Flest allt sem komi fram í greinanámskrá í upplýsinga- og tæknimennt ætti í raun að flokkast sem lífsleikni og ætti að kenna undir þeim hatti.
Skema býður einnig upp á námskeið fyrir kennara sem vilja bjóða upp á kennslu í forritun og Rakel segir að margir kennarar, ekki síst þeir eldri, séu mjög áhugasamir. Mjög skorti þó á menntun kennara í þessum geira og menntasvið Háskóla Íslands verði að gjöra svo vel að „hysja upp um sig brækurnar“ því kennarar geti útskrifast með meistarapróf í upplýsinga- og tæknimennt án þess að þurfa nokkuð að snerta á forritun.