Stjörnuskoðunaráhugamenn eru spenntir vegna svokallaðra loftsteinadrífu sem mun verða yfir Íslandi um miðjan desember. Meðal þeirra sem hyggjast skoða loftsteinana eru ferðamenn og Sævar Helgi Bragason hjá Stjörnfræðivefnum segir að hópur manna muni koma til Íslands í þeim tilgangi að skoða fyrirbærið.
„Þetta er bónus fyrir ferðamenn sem koma hingað um miðjan desember. Um það leyti verða kjöraðstæður til að skoða loftsteinadrífuna. Þá er tungllaust og kjöraðstæður til að skoða loftsteinadrífuna sem heitir Geminítar,“ segir Sævar.
Hann segir fyrirbærið mikið sjónarspil og því hlakki allir stjörnuskoðunaráhugamenn til þess að bera loftsteinadrífuna augum.
„Þegar halastjörnur fara í kringum sólina þá skilja þær eftir sig slóð af efni. Jörðin fer stundum í gegnum þessa slóð og þegar það gerist þá fáum við þessa loftsteinadrífu. Þetta gerist einu sinni á ári, um miðjan desember,“ segir Sævar
Hann segist vita til þess að hópur breskra ferðamanna hyggi á ferð til Íslands í þeim tilgangi að bera loftsteinadrífuna augum. Flestir aðrir ferðamenn muni skoða hana samhliða norðurljósaskoðun.
Hann segir stjörnuáhugamenn á Íslandi áhugasama um fyrirbærið. „Sumir bíða hreinlega eftir þessu og telja loftsteinana til þess að meta hversu öflug drífan var. Þetta er mikið sjónarspil og má líkja við að sjá marga loftsteina falla í einu.“
Sævar er meðal annars formaður Stjörnuskoðunarfélags á Seltjarnarness. Í því eru um 300 meðlimir. Hann segir stjörnur höfða til margra vegna hins dulurfulla og ókannaða sem himingeimurinn býður upp á. „Félagsmenn hittast einu sinni í mánuði á fræðslufundum. Svo hittumst við oft á ákveðnum stöðum á landinu þar sem eru góðar aðstæður til stjörnuskoðunar,“ segir Sævar.
Hann segir það misskilning að sérstakan stjörnukíki þurfi til þess að skoða stjörnurnar. „Það er hægt að stunda stjörnuskoðun með berum augum. Eins er gott að nota venjulegan handsjónauka. Það eru eingöngu þeir sem vilja kafa dýpra og skoða fjarlægar vetrarbrautir sem þurfa sérstakan stjörnusjónauka,“ segir Sævar að lokum.