Græjur, s.s. símar og spjaldtölvur, verða það sem fær Bandaríkjamenn til að opna veskin þessi jólin, ef marka má nýja könnun.
Talið er að jólaverslunin verði 11% meiri vestanhafs í ár en í fyrra og að vinsælasta jólagjöfin verði tæknilegs eðlis.
„Neytendur eru bjartsýnni á efnahaginn þessi jólin miðað við í fyrra sem mun leiða til þess að þeir eyða meiri peningum í gjafir, þar á meðal raftæki,“ segir hagfræðingurinn Shawn DuBravac.
Samkvæmt nýrri könnun mun fólk að meðaltali eyða 1.634 dölum eða yfir 200 þúsund krónum í jólainnkaupin þetta árið. Þar af mun það eyða rúmlega 100 þúsund krónum í gjafir, eða um 9% meira en á síðasta ári. Meðalneytandinn mun eyða yfir 30 þúsund í kaup á raftækjum í jólapakkana.
Spjaldtölvur eru efstar á óskalista flestra Bandaríkjamanna fyrir þessi jólin og skiptir þá engu hvort viðkomandi er unglingur eða gamalmenni. Þó er talið að snjallsímar verði vinsælli jólagjöf.