Búlgarskir fornleifafræðingar segjast hafa fundið elstu forsögulegu borg Evrópu sem vitað er um. Um er að ræða virkisborg skammt frá nútímaborginni Provadia og talið er að hún hafi verið miðstöð saltframleiðslu.
Með þessari uppgötvun er talin komin fram skýringin á gríðarlegum gullfundi skammt þar frá fyrir 40 árum. Borgin forna er í norðvesturhluta Búlgaríu. Fornleifafræðingarnir álíta, að þar hafi búið um 350 manns og borgin verið við lýði á árunum 4700 til 4200 fyrir Krist. Hún er því 1500 árum eldri en upphaf forngrískrar menningar.
Íbúar suðu vatn úr lind í nágrenninu og notuðu það til að búa til saltstöngla sem verslað var með og notað til að geyma kjöt.
Á þessum tíma var salt afar verðmæt afurð og segja sérfræðingar það geta skýrt að hluta hina gríðarlegu múra sem umgirtu borgina.
Uppgröftur hófst á þessum slóðum árið 2005 og þar hafa meðal annars komið í ljós leyfar tveggja hæða húsa og fjöldi fórnarpytta. Lítill grafreitur fannst við borgina fyrr á árinu og er enn til rannsóknar.
„Við erum ekki að tala um borgríki á við þau grísku eða Róm til forna eða miðaldabæi, heldur það sem fornleifafræðingar eru sammála um að hafi verið borg á fimmta árþúsundinu fyrir Krists burð,“ segir einn fornleifafræðinganna búlgörsku við frönskuk fréttastofuna AFP.