Sagði að fjölga þyrfti björgunarbátum um borð í Titanic

Farþegarskipið Titanic sökk 15. apríl 1912.
Farþegarskipið Titanic sökk 15. apríl 1912. AFP

Breskur embættismaður sagði að fjölga þyrfti björgunarbátum um borð í farþegaskipinu Titanic um helming skömmu áður en það hélt í jómfrúarferð sína í apríl 1912 frá Bretlandi til New York. Ferðinni lauk sem kunnugt er með því að skipið sigldi á ísjaka 15. apríl sama ár og sökk.

Fram kemur á fréttavef Daily Telegraph í dag að embættismaðurinn Maurice Clarke hafi farið um borð í Titanic um fimm klukkustundum áður en skipið hélt í jómfrúarferð sína í því skyni að taka út öryggismál skipsins. Niðurstaða hans var sem fyrr segir að fjölga þyrfti björgunarbátum um borð í Titanic um 50%.

Þetta kemur fram í skjölum sem nýlega voru uppgötvuð og hafa verið boðin til sölu á uppboði en þar kemur fram að Clarke hafi vitað að ef hann fylgdi athugasemdum sínum eftir myndi hann missa vinnuna þar sem eigendur Titanic hefðu þrýst á yfirmenn hans að veita skipinu tilskilin leyfi þrátt fyrir ágalla á öryggismálum þess.

Þrátt fyrir þetta gaf Clarke vitnisburð sem var eigendum Titanic í hag þegar hann var kallaður fyrir opinbera nefnd sem falið var að rannsaka með hvaða hætti skipið hefði sokkið. Þegar hann var spurður að því hvort hann teldi að Titanic hefði verið nægjanlega vel útbúið fyrir ferðina svaraði hann: „Á nokkurs vafa.“

Einungis 706 farþegar björguðust þegar Titanic sökk en 1.522 manns fórust hins vegar með skipinu. Björgunarbátarnir sem voru á skipinu, 20 talsins, voru einungis nógu margir til þess að flytja 1.178 manns.

Frétt Daily Telegraph

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert