Svipar til jarðvegs á Hawaii og Íslandi

Rannsóknir NASA á jarðvegi sem geimvagninn Curiosity hefur safnað saman á plánetunni Mars hafa leitt í ljós að hann sé svipaður þeim sem er að finna á Hawaii í Kyrrahafi. Á Stjörnufræðivefnum er bent á að jarðvegurinn á Mars sé jafnframt svipaður þeim sem sé að finna á Íslandi.

Curiosity er vel tækjum búinn. Hann hefur síað jarðveginn og skotið röntgengeislum í agnirnar til að komast að því úr hverju þær eru samsettar, að því er segir í frétt á vef breska ríkisútvarpsins.

Fram kemur að þessi sýnishorn eigi að gefa mönnum vísbendingu um jarðfræðilega sögu rauðu plánetunnar, líkt og Mars er jafnan kölluð vegna rauðra sanda.

Rannsóknir Curiosity leiddu í ljós að jarðvegurinn sem könnunarfarið rannsakaði sé úr blágrýti sem myndast í kjölfar eldgoss. Það sé því svipað því sem sést á Hawaii. Ekki er vísað í Íslandstenginguna á vef NASA en á Stjörnufræðivefnum segir að Curiosity sitji á eldfjallajarðvegi „sem er mjög líkur dæmigerðum íslenskum eldfjallajarðvegi“.

Þann 6. ágúst sl. lenti Curiosity ofan í Gale gígnum, sem er risavaxinn dæld við miðbaug Mars. Síðan þá hefur geimvagninn ferðast rúma 480 metra austur í áttina að stað sem kallast Glenelg. Gervihnattamyndir af svæðinu sýna að þarna séu áhugaverð gatnamót þriggja svæða sem eru jarðfræðilega frábrugðin hvert öðru.

Curiosity er hins vegar ekki komið til Glenelg þar sem það stöðvaðist við Rocknest til að taka jarðvegssýni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert