Metlosun koltvísýrings 2011

Kolareykur frá verksmiðjustrompum.
Kolareykur frá verksmiðjustrompum.

Losun koltvísýrings náði nýjum hæðum á síðasta ári þegar um 34 milljarðar tonna streymdu út í andrúmsloftið. Þetta segir þýsk rannsóknarstofnun um endurnýjanlega orku, IWR. Kínverjar eiga enn metið í koltvísýringsframleiðslu.

Samkvæmt rannsóknum IWR tók losun koltvísýrings örlitla dýfu árið 2009, líklega í tengslum við heimskreppuna. Síðan þá hefur koltvísýringsframleiðsla hins vegar aukist áfram jafnt og þétt og árið 2011 varð ríflega 800 milljarða tonna aukning miðað við árið 2009. Þar voru 8,9 milljarðar tonna losaðir í Kína, mun meira en í Bandaríkjunum sem losuðu 6 milljarða tonna af koltvísýringi. 

„Ef þessi þróun heldur áfram þá mun hnattræn losun koltvísýrings aukast um 20% til viðbótar fyrir árið 2020 og mun þá ná 40 milljörðum tonna af CO2 á ári,“ segir í yfirlýsingu Norberts Allnochs, framkvæmdastjóra IWR, í dag.

3 af 10 löndum drógu úr losun

Árið 1990 var árleg losun koltvísýrings um 22,7 milljarðar tonna. Á eftir Kína og Bandaríkjunum er Indland í þriðja sæti þeirra landa sem framleiða mest af koltvísýringi eða 1,8 milljarða tonna, en þar á eftir koma Rússland með 1,7 milljarða tonna, Japan með 1,3 milljarða og Þýskaland með 804 milljónir tonna á ári. 

Af þessum 10 löndum voru aðeins þrjú sem drógu úr losun koltvísýrings milli áranna 2010 og 2011: Bandaríkin, Rússland og Þýskaland. 

Niðurstöðurnar eru birtar í aðdraganda árlegs fundar um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sem þetta árið fer fram í Doha í Katar frá 26. nóvember til 7. desember. Meginverkefni ráðstefnunnar er að endurnýja þær skuldbindingar sem samið var um með Kyoto-bókuninni 1997, en renna út 31. desember 2012. 

Ekki er búist við að nýr bindandi samningur um losun koltvísýrings náist fyrr en árið 2015 og mun hann þá ekki taka gildi fyrr en árið 2020. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert