Bandarískir vísindamenn hafa rannsakað örverugróður í nöflum fólks og segja hann ótrúlega fjölskrúðugan, að því er segir í frétt Berlingske Tidende sem vitnar í National Geographic. Að jafnaði séu um 67 tegundir af bakteríum í nafla. Blaðið minnir á að vatn og sápa nái sjaldan vel inn í naflann og þar hafi örverur því gott næði.
Sumar af bakteríunum sem fundust í hópi þeirra 60 sem rannsakaðir voru eru sagðar velþekktar en aðrar mjög sjaldgæfar. En alls voru tegundirnar 2.638. Methafinn reyndist vera með alls 107 bakteríur í naflanum. Einn var með tvær bakteríur sem að jafnaði finnast aðeins í afar erfiðu umhverfi eins og á ísjökum. Vonast er til þess að rannsóknin geri mönnum kleift að átta sig á því hvaða áhrif þessar bakteríur hafi á heilbrigði fólks.