Hægt er að draga úr umfangi á tölvubúnaði um hálft tonn í 50 manna fyrirtæki með því að taka í notkun sýndarútstöðvar, sem eru smávélar án stýrikerfa, diska, minnis og örgjörva.
Í tilkynningu frá Nýherja er haft eftir Antoni M. Egilssyni, lausnaráðgjafa Nýherja, að vöxtur sé í notkun á slíkum búnaði í fyrirtækjum og stofnunum hér á landi. Ástæðan sé einkum krafa um aukið hagræði.
Sýndarútstöðvar nota minna rafmagn en hefðbundnar útstöðvar og bilanatíðni er lægri þar sem sýndarútstöð er einungis birtingalag fyrir gögn. Hefðbundnum verkefnum tæknifólks; notendaaðstoð, gagnatiltekt, öryggisuppfærslur útstöðva og eftirlit með vírusvörnum er sinnt miðlægt því enginn hugbúnaður liggi á útstöð hjá notanda, að því er fram kemur í tilkynningunni.