Skildi myndavélina eftir á tunglinu

Eugene Cernan, leiðangursstjóri Appollo 17, skildi myndavélina sína eftir á …
Eugene Cernan, leiðangursstjóri Appollo 17, skildi myndavélina sína eftir á tunglinu. Wikipedia/NASA

Eugene Cernan, leiðangursstjóri Appollo 17-tunglleiðangursins, skildi myndavélina sína eftir á tunglinu fyrir 40 árum. Þá hélt hann að næsti Appollo-leiðangurinn myndi sækja vélina fyrir sig. Raunin varð þó önnur og Cernan er enn síðasti maðurinn sem steig fæti á tunglið. Þetta kemur fram í frétt The Telegraph um málið.

Cernan vildi rannsaka hver áhrif sólargeislunar á myndavélarlinsuna yrði og ákvað því að skilja vélina eftir og beindi linsunni upp í loft: „Þannig að þegar ég fór upp stigann tók ég enga mynd af síðasta skrefi mínu á tunglinu. Hversu heimskulegt var það? Hefði ekki verið betra að taka myndavélina með mér, taka myndina, ná filmunni úr og skilja svo vélina eftir?“ sagði Cernan við Bloomberg-fréttastofuna.

Árið 1972 hafði Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, áform um að fara minnst þrjár aðrar Appollo-ferðir til tunglsins í kjölfar Appollo 17. Cernan var því í góðri trú um að næsti leiðangur myndi ná í vélina fyrir sig, en þar sem „kapphlaupinu um geiminn“ á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna var í raun lokið þegar Neil Armstrong varð fyrstur manna til að ganga á tunglinu lenti stofnunin í niðurskurði.

Cernan, sem nú er 78 ára, telur rétt að stefna á leiðangur til Mars en finnst að fyrst þurfi að setja upp bækistöð á tunglinu. Þá þurfi mun betri aðferðir til knúnings en þær sem nú er völ á. „Vil ég fara til Mars? Já, en ég vil ekki eyða níu mánuðum í ferðalagið og bíða svo í 18 mánuði í viðbót til þess að geta komist heim. Það þarf knúningsafl sem gæti komið okkur þangað á tveimur mánuðum og gert okkur kleift að snúa aftur til baka þegar okkur lystir. Til þess þarf fareinda- og kjarnorkudrif og aðstoð frá bækistöð á tunglinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert