Konráðs gæða klístur búið til

Nú eru sex dagar til jóla og í dag sýna eðlis- og efnafræðinemar við Háskóla Íslands hvernig hægt er að búa til Konráðs gæða klístur í eldhúsinu heima en Lína Langsokkur notaði slíkt klístur mikið í ævintýrum sínum. 

Jóladagatal vísindanna er ætlað krökkum á öllum aldri og markmiðið er að auka áhuga þeirra raunvísindum og verkfræði með það fyrir augum að fjölga nemendum í greinunum til framtíðar. Samtök Iðnaðarins eru bakhjarl verkefnisins.

Efni og áhöld:

·       Tvö einnota mál (glös)
·       Reglustika og tússpenni
·       Vatn
·       Hvítt föndurlím (ekki trélím)
·       Borax (fæst í garðyrkjuverslunum, t.d. í Garðheimum)
·       Ílát til að hrista lausn í, t.d. lítil krukka með loki eða ½ L plastflaska
·       Tréprjónn eða eitthvað annað til að hræra með
·       Matarlitur. Það er flott að nota grænan eða bláan.

Verklýsing

·       Merkið glasið með tveimur línum, 3 og 5 cm frá botni glassins.
·       Hellið lími í glasið, upp að 3 cm línunni.
·       Hellið vatni í glasið, upp að 5 cm línunni og hrærið vel.
·       Búið til mettaða borax lausn:

o   Setjið um eina teskeið af borax og ca 1 dL af vatni í krukku eða flösku. Hristið vel. Gætið þess að enn sé eitthvað óuppleyst borax á botninum.

o   Leyfið borax lausninni að standa í 2 mínútur svo að kornin nái að setjast vel til botns.

o   Hellið þá hluta af lausninni í annað tómt mál en gætið þess að kornin fari ekki með.

o   Setjið nokkra dropa af matarlit út í lausnina.

·       Hellið hluta af borax lausninni út í límlausnina, smá í einu og hrærið á milli. Þið finnið hvernig lausnin þykknar. Farið varlega, því ef þið hellið of mikilli borax lausn út í þá misheppnast tilraunin. Það þarf ekki að nota alla borax lausnina.
·       Þegar límlausnin er öll orðin þykk og slímug má taka slímið upp úr og leika með það.
·       Þegar þið eruð ekki að leika með slímið er best að geyma það í lokuðu íláti, t.d. í loftþéttum renndum poka (zip).
·       Slímið er ekki eitrað en það er ekki æskilegt að borða það.

Hvernig virkar þetta?

Föndurlím inniheldur fjölliður. Fjölliða er sameind sem má líkja við langa keðju þar sem grunneiningin er alltaf sú sama og endurtekur sig. Fjölliðurnar í líminu renna til án þess að festast saman, eins og spagettí í vatni.

Borax lausnin inniheldur sameindir sem hvarfast við fjölliðurnar. Hver borax sameind hefur tvær “hendur” sem geta gripið í fjölliðu. Þegar borax lausninni er blandað út í límlausnina grípa borax sameindirnar í fjölliðurnar þannig að þær geta ekki lengur runnið hvor framhjá annarri. Þá þykknar lausnin og verður að slími.

Þetta slím inniheldur ekki sömu efni og þau slím sem fást í leikfangaverslunum. Helsti munurinn er sá að þetta slím inniheldur vatn sem gufar upp úr slíminu með tímanum. Þá þornar slímið og eyðileggst. Þess vegna er best að geyma það í lokuðu íláti.

Viltu vita meira?

Límið inniheldur fjölliður sem heita polyvinyl acetate. Fjölliðurnar hvarfast að einhverju leyti við vatnið þannig að aceate hóparnir (-OCOCH3) skiptast út fyrir hydroxyl hópa (-OH) úr vatninu.

Borax hefur efnaformúluna Na2B4O7·10H2O. Í hverri borax sameind eru tveir B-OH hópar sem geta hvarfast við acetate hópa í fjölliðunum. Við efnahvarfið myndast nýtt efnatengi milli borax sameindar og tveggja fjölliða. Samtímis losnar acetate af fjölliðunum í formi ediksýru (CH3COOH). Ein borax sameind getur því tengt saman tvær fjölliður. Það kallast krosstenging milli fjölliða. Þegar margar fjölliður eru tengdar saman á þennan hátt gegnum borax sameindirnar myndast miklu stærri sameind sem fer öll í flækju og líkist meira föstu efni en vökva.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert