Massound Hannani var vanur að leika sér á svæði í Afganistan þar sem voru jarðsprengjur og hann lék sér líka stundum að sprengjubrotum sem hann fann. Nú hefur hann fundið upp leiktæki sem ætlað er að finna jarðsprengjur.
Hannani er af afgönskum og hollenskum ættum. Hann segir að mikil þörf sé á að reyna að gera umhverfi barna í Afganistan öruggara, en 812 manns fórust af völdum jarðsprengja á síðasta ári í Afganistan. Margir af þeim sem fórust voru börn.
Tækið sem hann er að þróa er kúla sem gerð er úr bambus og hægt er að velta á undan sér. Á því eru nemar sem greina hvort jarðsprengjur eru á svæðinu.
Hannani vonast eftir að tækið geti bjargað lífi barna í Afganistan. Hann bendir á að hvert tæki kosti ekki nema um 40 evrur.