Mikil ráðgáta er loksins leyst

Breskir vísindamenn vita nú hvers vegna húðin á fingrum okkar …
Breskir vísindamenn vita nú hvers vegna húðin á fingrum okkar og tám hrukkast í bleytu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Breskir vísindamenn gætu verið að því komnir að ráða gátuna um hvernig stendur á því að húð á fingrum og tám hrukkast þegar hún blotnar. Þeir hafa nefnilega sannreynt að fólk á auðveldara með að ná taki á blautum hlutum þegar húðin er hrukkuð.

Áður var talið að húðin hrukkaðist vegna þess að húðin þendist út í vatni, en nýjar rannsóknir sýna að þetta gerist þegar æðarnar dragast saman til að bregðast við bleytunni.

Vísindamennirnir telja að forfeður okkar hafi þróað með sér þessar hrukkur er þeir þurftu að leita sér matar í votlendi.

Sagt er frá þessum niðurstöðum í tímariti Konunglega læknafélagsins í Bretlandi. Einn vísindamannanna, dr. Tom Smulders, segir í samtali við fréttavef BBC að áhugavert væri að kanna hversu mörg dýr búa yfir þessum sömu eiginleikum.

Vísindamennirnir gerðu ýmsar tilraunir til að sannreyna kenningu sína. Þeir fengu fólk til að taka með annarri hendinni litlar marmarakúlur upp úr fötu fullri af vatni og síðan átti fólkið að ýta þeim í gegnum lítið op og taka við þeim með hinni hendinni.

Þeir sem voru með hrukkaða húð á fingrum voru fljótari að vinna verkefnið en þeir sem voru með slétta húð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert