Venjulegt kvef og inflúensa geta haft svipuð einkenni en orsakast af sitt hvorri veirusýkingunni. En hvernig getur þú þekkt muninn þarna á milli?
Yfirleitt eru flensueinkenni verri og stundum mjög slæm, segir í frétt AP-fréttastofunnar. Hér að neðan má sjá stutta samantekt um helstu einkenni kvefs og inflúensu.
Einkenni kvefs: Stíflað nef og nefrennsli. Sár háls og hnerri. Stundum hósti. Hiti fylgir yfirleitt ekki venjulegu kvefi. Fáir fá hita, hroll eða beinverki og ef það gerist eru einkennin væg.
Inflúensa: Flestir fá hita. Hitanum fylgir kuldahrollur, höfuðverkur og beinverkir, stundum mjög sárir. Þá fylgir flensunni þreyta. Einkennin geta komið skyndilega, á innan við 3-6 klukkustundum. Oft fylgir flensunni þurr hósti en hálsbólga sjaldnar.
Forvarnir: Til að komast hjá kvefi og flensu er nauðsynlegt að þvo hendur sínar reglulega með sápu eftir að hafa verið innan um fólk. Ekki nota sömu drykkjar- eða matarílát og aðrir. Láttu bólusetja þig.
Meðferð: Fólk sem fær kvef eða mild flensueinkenni á að hvíla sig vel og drekka nóg. Þeir sem fá meiri einkenni, s.s. háan hita eða eiga erfitt með öndun, eiga að leita til læknis.