Fulltrúar danskra sæðisbanka funda með þarlendum heilbrigðisyfirvöldum í dag og ræða yfirvofandi sæðisþurrð sem gæti skapast eftir að ný lög um sæðisgjafir gengu í gildi fyrir skömmu.
Hinn 1. október síðastliðinn tóku gildi lög sem kveða á um að sæði úr hverjum sæðisgjafa megi nota til að geta allt að 12 börn. Áður mátti nota sæði úr hverjum og einum til að geta allt að 25 börn. Stjórnendur sæðisbankanna eru uggandi um að ekki fáist nægilega margir sæðisgjafar til að anna eftirspurn eftir lagabreytinguna.
Danskir sæðisbankar hafa um langt skeið selt sæði til annarra landa og dæmi eru um að hver og einn sæðisgjafi hafi getið af sér allt að 100 börn um víða veröld.
Í ljós kom að danski sæðisbankinn European Spermbank var með á sínum snærum sæðisgjafa sem bar með sér taugasjúkdóminn NF1, sem myndar bandvefsæxli. Sá hafði getið 43 börn og greindust níu þeirra með sjúkdóminn.
En engin leið er að útiloka slík tilfelli, að mati Ole Schou, sem er forstjóri annars stórs dansks sæðisbanka, Cryos. „Sannleikurinn er sá að allt fólk, þar með taldir sæðisgjafar, geta borið með sér ýmislegt. Með því að takmarka sæðisgjafir við 12, þá fáum við bara annan sæðisgjafa í staðinn sem getur borið eitthvað annað með sér, segir hann í samtali við Berlingske Tidende.