„Við þessi tímamót er áhugavert að skoða hversu miklu Helgi hefur komið í verk. Ásamt samstarfsfólki sínu hefur hann aflað svo mikilla gagna um íslenska jökla, fyrst og fremst upplýsingar um botn og yfirborð jöklanna en einnig um afkomu og hreyfingu þeirra, að óvíða í heiminum eru til jafn góð gögn til að sannprófa líkön fyrir framtíðaspár. Við höldum áfram að vinna við að þróa þessi líkön,“ segir dr. Guðfinna Aðalgeirsdóttir, dósent í jöklafræði við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, sem flutti erindi á ráðstefnu í gær við HÍ sem haldin var til heiðurs dr. Helga Björnssyni, jöklafræðingi, í tilefni af sjötugs afmæli hans.
Segir starf Helga hafa verið mikilvægt
„Við höfum gert margar líkankeyrslur sem sýna hvernig Hofsjökull og Langjökull munu hörfa á næstu 100 til 200 árum, en það er í raun háð framtíðarspám fyrir hitastigið og úrkomuna hver örlög jöklanna munu verða. Grundvallargögnin, sem gera þessar líkankeyrslur mögulegar, hefur Helgi aflað ásamt góðum hóp af samstarfsfólki sem vann mikla frumkvöðla vinnu við íssjármælingar á íslenskum jöklum. Megininntak erindisins í gær var að draga fram hversu mikilvægt starf Helga hefur verið til að gera svona reikninga fyrir framtíðina mögulega,“ segir Guðfinna.
Breytingar íslenskra jökla annarskonar en í Kanada
„Það eru því ekki nýjar fréttir að jöklar á Íslandi eru að hörfa og munu að öllum líkindum halda áfram að hörfa í framtíðinni, en mér fannst áhugavert erindi Shawn Marshalls sem einnig tók þátt í ráðstefnunni í gær, en hann sýndi fram á að sú orka sem fer í að bræða ísinn skiptist öðruvísi fyrir kanadíska jökla en fyrir íslenska jökla.
Annarsvegar eru íslensku jöklarnir norðar og árstíðarbreytingar í sólargeislun stærri og hinsvegar að skýjafar hefur önnur áhrif á breytinguna í bráðnun, sem gerir íslensku jöklana næmari fyrir hitastigsbreytingum.“
Eyjafjallajökulsgosið hafði mikil áhrif á bráðnun
Um áhrifin af gosinu í Eyjafjallajökli segir Guðfinna: „Ísinn sem bráðnaði á meðan gosinu stóð hefur ekki komið aftur. Það mun taka svolítinn tíma fyrir þann ís að koma til baka, en það sem gerðist líka var að aska dreifðist yfir aðra jökla. Það dreifðist þunnt lag af ösku yfir Langjökul, Hofsjökul og Vatnajökul en Mýrdalsjökull varð eiginlega alveg svartur.“
Hún segir að um þetta hafi erindi Sverris Guðmundssonar á ráðstefnunni í gær fjallað. „Hann sýndi hve mikil áhrif þessi aska hafði á bráðnun jöklanna, það varð um það bil 1,5 sinnum meiri bráðnun á árinu 2010, árið sem gosið í Eyjafjallajökli var, heldur en á venjulegu ári.
Beinu áhrifin voru að þegar yfirborð jöklanna varð dökkt, vegna öskunnar sem dreifðist yfir þá, bráðnaði meiri ís en venjulega. Í staðinn fyrir að sólarorkan endurkastaðist af hvítu yfirborðinu þá nýttist sú orka til að hita þetta dökka yfirborð og bræða meira af ís. Árið 2010 varð óvenju mikil bráðnun á jöklunum. Síðan snjóaði á þetta öskulag næsta vetur á eftir og þá grófst sú aska í snjó þannig að þessara beinu áhrifa gætir ekki lengur,“ segir Guðfinna.