Naustaskóli vann LEGO-keppnina

Frá keppninni í Háskólabíói í dag.
Frá keppninni í Háskólabíói í dag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Liðið Molten frá Naustaskóla á Akureyri sigraði í First Lego, tækni- og hönnunarkeppni grunnskólabarna sem fram fór í Háskólabíói í dag. Þetta var í sjöunda skipti sem keppnin var haldin og hátt í 100 krakkar á aldrinum 10-15 ára voru skráð til leiks.

Liðið hefur nú áunnið sér rétt til þátttöku í Evrópumóti First Lego League. Veitt voru fjölmörg önnur verðlaun, fyrir bestu lausn í hönnun á vélmenni og forritun, fyrir besta rannsóknarverkefnið, bestu dagbókina, besta skemmtiatriðið og bestu liðsheildina.

Tíu lið víðsvegar af landinu

Um var að ræða tíu lið víðsvegar að af landinu, en liðsfjöldinn var á bilinu 8-12 manns ásamt fullorðnum liðsstjóra. Þau fengu öll senda þrautabraut ásamt upplýsingum um rannsóknarverkefni í september síðastliðnum.

Keppninni var skipt niður í fimm hluta. Í fyrsta lagi smíðuðu keppendur vélmenni úr tölvustýrðu LEGO-i sem var forritað til að leysa tiltekna þraut. Að þessu sinni snerist þrautin um ýmis verkefni sem eldri borgarar þurfa að leysa í lífinu. Þetta voru fyrirfram ákveðin verkefni og þurfti að forrita vélmenni til þess að leysa þau.

Þurftu að útskýra forritunina

Í öðru lagi áttu keppendur að gera vísindalega rannsókn á ákveðnu efni sem tengd var þema keppninnar. Í þriðja lagi héldu keppendur ítarlega dagbók um undirbúninginn og í fjórða lagi áttu þeir að flytja frumsamið skemmtiatriði. Í fimmta og síðasta lagi þurftu liðin að gera grein fyrir því hvernig þau forrituðu vélmennið sitt en þar reyndi á þekkingu þátttakenda á eigin búnaði.

Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands hafði umsjón með keppninni en bakhjarlar hennar eru Nýherji, Verkfræðingafélag Íslands, CCP, Samtök iðnaðarins, Krumma, Almenna verkfræðistofan og LS Retail.

Frá Háskólabíói í dag.
Frá Háskólabíói í dag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Frá Háskólabíói í dag.
Frá Háskólabíói í dag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Frá Háskólabíói í dag.
Frá Háskólabíói í dag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert