Leitar EKKI að konu til að bera Neanderthals-barn

Neanderthals-menn eru taldir hafa litið einhvern veginn svona út.
Neanderthals-menn eru taldir hafa litið einhvern veginn svona út. mbl.is

Virtur sérfræðingur í erfðafræðum við læknadeild Harvard-skóla hefur þurft að koma fram í fjölmiðlum og leiðrétta mjög svo útbreiddan misskilning: Hann er EKKI að leita að konu til að bera Neanderthals-barn.

„Alls ekki,“ segir George Church.

- Er hann að mælast til þess að búinn verði til Neanderthalsmaður? „Nei.“

- Eru fyrirætlanir um slíkt í framtíðinni? „Við erum ekki með nein slík verkefni, við höfum enga heimild og enga styrki til að gera það,“ segir hann í viðtali við AP-fréttastofuna.

Undanfarna daga hafa fréttir um að Church væri að leita að staðgöngumóður til að bera barn sem bæri gen Neanderthals-manna, verið birtar víða. Í fréttunum hefur komið fram að Church segi þessa konu þurfa að vera „ævintýragjarna.“

Church segir fréttirnar byggðar á misskilningi eftir viðtal sem hann gaf í þýska vikublaðinu Der Spiegel. Í viðtalinu ræðir hann nýja ritgerð sína um erfðafræði.

Church segir að í ritgerðinni sé stuttlega komið inn á þann fræðilega möguleika að búa til Neanderthals-mann. Hann segist alls ekki hafa verið að auglýsa eftir konu til að ganga með slíkt barn.

Neanderthals-menn voru uppi í Evrópu en dóu út fyrir 40-45 þúsund árum. Þeir voru veiðimenn og hafa einnig fundist ummerki um þá í Vestur-Asíu.

Vísindamenn hafa fundið DNA í steingervingum af Neanderthalsmönnum. Til þess að „búa til“ slíkan fornmann væri fyrsta skrefið að koma þessu DNA í mannsfrumur. Úr þeim frumum yrði búið til fósturvísir.

Allt þetta ferli myndi vekja upp margar siðferðislegar spurningar - sem og heilsufarslegar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert