Belgískir kennaranemar á lokaári eiga í erfiðleikum með að svara einföldum spurningum um landafræði, stjórnmál og sagnfræði. Könnun sem gerð var meðal kennaranema á lokaári sýndi að aðeins einn af hverjum þremur gat fundið Bandaríkin á landakorti og um helmingur þeirra vissi ekki hvar Kyrrahafið væri að finna.
Tveir af hverjum þremur gátu ekki borið kennsl á Mao, fyrrverandi leiðtoga Kínverja, á mynd. Flestir töldu myndina vera af Kim Jong-il, fyrrverandi leiðtoga Norður-Kóreu.
Vísindamenn við háskóla í Limburg gerðu könnunina meðal 1.000 kennaranema í átta kennaraskólum Belgíu.
Á könnunarprófinu voru 114 krossaspurningar.
„Engum koma þessar niðurstöður algjörlega á óvart,“ segir Erik De Winter, einn vísindamannanna sem framkvæmdu rannsóknina, við Reuters-fréttastofuna.
Nemendur sem sögðust fylgjast með fréttum og lesa blöð fengu hærri einkunn á prófinu en aðrir.