Google Maps hefur birt nýtt kort af Norður-Kóreu sem sýnir vegi, lestarstöðvar, sjúkrahús, verslanir og meira að segja hvar fangelsin eru. Áður var engar slíkar upplýsingar að finna á korti Google af landinu.
Fram til dagsins í dag sýndu kort Google af N-Kóreu enga vegi, lestarstöðvar, garða eða staðsetningu veitingahúsa. Það sem kortið sýndi var lítið annað en staðsetning höfuðborgar landsins, Pyongyang.
Nýja kortið sýnir hins vegar allt: staðsetningu vega, lestarstöðva, minnismerkja, spítala, verslana og fangelsa.
Google segir að kortið sé afrakstur vinnu sjálfboðaliða sem hafi safnað upplýsingum í gegnum vefsíðu sem kallast Google Map Maker, en síðan er byggð upp líkt og Wikipedia. Settar eru inn upplýsingar sem gefa öðrum notendum færi á að bæta við upplýsingum og koma með leiðréttingar. Kort fyrir Búrma og Afganistan hafa verið unnin með sama hætti.
Norður-Kórea er einangrað land og íbúar landsins hafa takmarkaðan aðgang að netinu. Nýja kortið er því unnið af fólki sem býr utan N-Kóreu. Vinna við kortið hófst árið 2009. Byggt er á gervihnattarmyndum, opinberum kortum og upplýsingum frá notendum netsins.