Íslendingar drápu elsta lifandi dýrið, sem þekkist á jörðu. Það gerðist árið 2007, þegar rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson dró upp trollið af 83 metra dýpi skammt frá Grímsey. Í trollinu var brúnleit kúfskel, um 11 cm á breidd. Eftir aldursgreiningu kom í ljós að skelin var 507 ára gömul og þar með elsta lifandi dýr jarðarinnar.
Þetta skrifar Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur á bloggi sínu í dag.
Haraldur skrifar að aldur kúfskeljarinnar hafi verið greindur af breskum vísindamönnum með því að telja árhringi í skelinni og með geislakolaaðferð. „Þegar fréttin barst út um þennan merka fund við Grímsey vakti það mikla athygli meðal þeirra vísindamanna, sem rannsaka öldrun og elli, einkum í Bretlandi og Þýskalandi. Hvað er það, sem gerir kúfskelinni fært að lifa svona lengi? Er hér að finna lífsins elixír, sem gæti ef til vill gefið okkur eilíft líf, eða alla vega lengra líf?“ spyr Haraldur.
Hann segir að kúfskelin innihaldi mikið magn af andoxunarefnum allt sitt líf. Einnig eru efnaskipti hennar lág og virðist skelin því vera hálfsofandi, einkum að vetrarlagi. „Rannsóknir halda áfram, en ekki sýnist mér að kúfskelin gefi okkur lausnina um eilíft líf, nema þá fyrir þá, sem vilja eyða lífinu grafnir í leirinn á hafsbotni, innan við 4 stiga hita og hálfsofandi,“ skrifar Haraldur.
Kúfskelin (arctica islandica) er nokkuð algeng umhverfis Ísland. Hún er víða veidd til manneldis, til dæmis við austurströnd Bandaríkjanna.