Staðfest að Ríkharður III. er fundinn

00:00
00:00

Vís­inda­menn frá Há­skól­an­um í Leicester staðfestu í dag að bein sem fund­ust und­ir bíla­stæði í Leicester í sept­em­ber á síðasta ári eru af Rík­h­arði III., en hann lést í orr­ustu árið 1485. Þetta er tal­inn vera einn merk­asti forn­leifa­fund­ur síðari ára.

„Niðurstaða vís­inda­manna sem unnu und­ir stjórn Há­skól­ans í Leicester er að það sé hafið yfir all­an vafa að sá ein­stak­ling­ur sem fannst í Grey Fri­ars-kirkju í sept­em­ber 2012 sé Rík­h­arður III., síðasti kon­ung­ur Eng­lands af ætt Planta­genet,“ sagði Rich­ard Buckley, sem stjórnaði rann­sókn­inni, á blaðamanna­fundi í dag.

Á blaðamanna­fund­in­um fóru vís­inda­menn ít­ar­lega yfir niður­stöðu rann­sókna sinna. Forn­leifa­fræðing­ur gerði grein fyr­ir upp­greftr­in­um og hvernig beina­grind­in fannst. Fram kom að fæt­ur beina­grind­ar­inn­ar voru horfn­ir, en talið er að það hafi gerst þegar forn­minj­un­um var raskað löngu eft­ir að líkið var lagt í gröf­ina.

Eng­in merki fund­ust um að líkið hefði verið sett í kistu og eng­in merki fund­ust um fatnað. Það er því vel hugs­an­legt að líkið hafi verið sett nakið í gröf­ina. Höfuðkúp­an lá aðeins ofar í gröf­inni en beina­grind­in. Miðað við hvernig hend­urn­ar lágu er talið hugs­an­legt að líkið hafi verið bundið á hönd­um þegar því var komið fyr­ir í gröf­inni.

Greindu 10 sár á beina­grind­inni

Rann­sókn á rif­beini leiddi í ljós að viðkom­andi ein­stak­ling­ur lést á tíma­bil­inu 1455-1540. Rann­sókn­in staðfesti einnig að um er að ræða karl­mann og að hann hafi verið „kven­leg­ur í vext­in­um“. Viðkom­andi var hryggskekkju. Niðurstaðan var að bein­in væru að öll­um lík­ind­um af 32 ára göml­um manni. Rík­h­arður III. var 32 ára þegar hann lést. Heim­ild­ir herma að hann hafi verið með hryggskekkju.

Bein­a­rann­sókn­in leiddi í ljós 10 sár og að þau hefðu öll verið veitt þess­um ein­stak­lingi skömmu fyr­ir dauða hans eða stuttu eft­ir að hann lést. Átta sár voru á höfuðkúp­unni og þar af voru tvö ban­væn. Eitt sárið var við háls­inn. Sum þess­ara sára bentu til að viðkom­andi hefði verið stung­inn eft­ir að hann lést.

Sam­tíma­heim­ild­ir herma að Rík­h­arður III. hafi fengið mjög þungt högg á höfuðið í orr­ust­unni og að hluti hjálms hans hafi gengið inn í höfuðið. Þá eru enn­frem­ur til heim­ild­ir um að líki hans hafi verið misþyrmt eft­ir að hann lést.

All­ar þess­ar rann­sókn­ir benda til að bein­in sem fund­ust und­ir bíla­stæðinu séu af Rík­h­arði III. En það sem ger­ir út­slagið er DNA-rann­sókn á bein­un­um og sam­an­b­urður við DNA-sýni úr fólki sem vitað er að er af­kom­end­ur syst­ur hans.

Fram kom á blaðamanna­fund­in­um að ætt­fræðing­ar hafi farið yfir ætt­ina til að reyna að sann­reyna að um sé að ræða raun­veru­lega af­kom­end­ur. Tek­in voru DNA-sýni úr nokkr­um ein­stak­ling­um til að bera sam­an við bein­in. Niðurstaðan leiddi í ljós að vís­inda­menn­irn­ir telja óhætt að full­yrða að það séu bein Rík­h­arðs III. sem fund­ust í gröf­inni.

DNA rann­sókn var gerð á nán­asta ætt­ingja Rík­h­arðs, sem er af­kom­andi syst­ur hans, Önnu af Jór­vík, í 17. lið. Sá er hús­gagna­fram­leiðandi og heit­ir Michael Ib­sen. Rík­h­arður III. átti sjálf­ur ekki af­kom­end­ur sem komust til full­orðins­ára.

Féll í lok Rósa­stríðsins

Í orr­ust­unni um Bosworth börðust Rík­h­arður III sem varð kon­ung­ur Eng­lands árið 1483 og Hinrik Tudor, jarl af Richmond. Borg­ara­stríð hafði staðið í Englandi ára­tug­um sam­an sem kallað var Rósa­stríðið, en þar tók­ust á kon­ung­s­ætt­ir sem kennd­ar eru við Jór­vík (York) og Lanca­ster.

Hinrik Tudor sigraði í orr­ust­unni og tók við kon­ung­dómi af Rík­h­arði III. Son­ur hans var Hinrik VIII. sem fræg­ur varð fyr­ir að eiga sex eig­in­kon­ur.

Af­kom­end­ur Hinriks höfðu hag af því að draga upp sem versta mynd af Rík­h­arði III. og Shakespeare þykir hafa gengið langt í því að mála hann dökk­um lit­um. Sagn­fræðing­ar telja hins veg­ar að Rík­h­arður III. hafi ekki verið svo slæm­ur kóng­ur ef litið er fram­hjá því að flest bend­ir til þess að hann beri ábyrgð á að tveir ung­ir bróður­syn­ir hans voru myrt­ir í Tower of London.

Nú er staðfest að þetta er höfuðkúpa Ríkharðs III. sem …
Nú er staðfest að þetta er höfuðkúpa Rík­h­arðs III. sem var kon­ung­ur Eng­lands 1483-1485. -
Ríkharður III.
Rík­h­arður III.
Rústir kirkju fundust á bílastæði í Leicester og Ríkharður III. …
Rúst­ir kirkju fund­ust á bíla­stæði í Leicester og Rík­h­arður III. var graf­inn í gólfi kirkj­unn­ar. Gavin Fogg
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert