Vísindamenn frá Háskólanum í Leicester staðfestu í dag að bein sem fundust undir bílastæði í Leicester í september á síðasta ári eru af Ríkharði III., en hann lést í orrustu árið 1485. Þetta er talinn vera einn merkasti fornleifafundur síðari ára.
„Niðurstaða vísindamanna sem unnu undir stjórn Háskólans í Leicester er að það sé hafið yfir allan vafa að sá einstaklingur sem fannst í Grey Friars-kirkju í september 2012 sé Ríkharður III., síðasti konungur Englands af ætt Plantagenet,“ sagði Richard Buckley, sem stjórnaði rannsókninni, á blaðamannafundi í dag.
Á blaðamannafundinum fóru vísindamenn ítarlega yfir niðurstöðu rannsókna sinna. Fornleifafræðingur gerði grein fyrir uppgreftrinum og hvernig beinagrindin fannst. Fram kom að fætur beinagrindarinnar voru horfnir, en talið er að það hafi gerst þegar fornminjunum var raskað löngu eftir að líkið var lagt í gröfina.
Engin merki fundust um að líkið hefði verið sett í kistu og engin merki fundust um fatnað. Það er því vel hugsanlegt að líkið hafi verið sett nakið í gröfina. Höfuðkúpan lá aðeins ofar í gröfinni en beinagrindin. Miðað við hvernig hendurnar lágu er talið hugsanlegt að líkið hafi verið bundið á höndum þegar því var komið fyrir í gröfinni.
Rannsókn á rifbeini leiddi í ljós að viðkomandi einstaklingur lést á tímabilinu 1455-1540. Rannsóknin staðfesti einnig að um er að ræða karlmann og að hann hafi verið „kvenlegur í vextinum“. Viðkomandi var hryggskekkju. Niðurstaðan var að beinin væru að öllum líkindum af 32 ára gömlum manni. Ríkharður III. var 32 ára þegar hann lést. Heimildir herma að hann hafi verið með hryggskekkju.
Beinarannsóknin leiddi í ljós 10 sár og að þau hefðu öll verið veitt þessum einstaklingi skömmu fyrir dauða hans eða stuttu eftir að hann lést. Átta sár voru á höfuðkúpunni og þar af voru tvö banvæn. Eitt sárið var við hálsinn. Sum þessara sára bentu til að viðkomandi hefði verið stunginn eftir að hann lést.
Samtímaheimildir herma að Ríkharður III. hafi fengið mjög þungt högg á höfuðið í orrustunni og að hluti hjálms hans hafi gengið inn í höfuðið. Þá eru ennfremur til heimildir um að líki hans hafi verið misþyrmt eftir að hann lést.
Allar þessar rannsóknir benda til að beinin sem fundust undir bílastæðinu séu af Ríkharði III. En það sem gerir útslagið er DNA-rannsókn á beinunum og samanburður við DNA-sýni úr fólki sem vitað er að er afkomendur systur hans.
Fram kom á blaðamannafundinum að ættfræðingar hafi farið yfir ættina til að reyna að sannreyna að um sé að ræða raunverulega afkomendur. Tekin voru DNA-sýni úr nokkrum einstaklingum til að bera saman við beinin. Niðurstaðan leiddi í ljós að vísindamennirnir telja óhætt að fullyrða að það séu bein Ríkharðs III. sem fundust í gröfinni.
DNA rannsókn var gerð á nánasta ættingja Ríkharðs, sem er afkomandi systur hans, Önnu af Jórvík, í 17. lið. Sá er húsgagnaframleiðandi og heitir Michael Ibsen. Ríkharður III. átti sjálfur ekki afkomendur sem komust til fullorðinsára.
Í orrustunni um Bosworth börðust Ríkharður III sem varð konungur Englands árið 1483 og Hinrik Tudor, jarl af Richmond. Borgarastríð hafði staðið í Englandi áratugum saman sem kallað var Rósastríðið, en þar tókust á konungsættir sem kenndar eru við Jórvík (York) og Lancaster.
Hinrik Tudor sigraði í orrustunni og tók við konungdómi af Ríkharði III. Sonur hans var Hinrik VIII. sem frægur varð fyrir að eiga sex eiginkonur.
Afkomendur Hinriks höfðu hag af því að draga upp sem versta mynd af Ríkharði III. og Shakespeare þykir hafa gengið langt í því að mála hann dökkum litum. Sagnfræðingar telja hins vegar að Ríkharður III. hafi ekki verið svo slæmur kóngur ef litið er framhjá því að flest bendir til þess að hann beri ábyrgð á að tveir ungir bróðursynir hans voru myrtir í Tower of London.