Smástirni fer framhjá jörðinni

Smástirnið 2012 DA14 nálgast nú jörðina á meira en 28.000 km hraða á klukkustund og hraðinn á eftir að aukast þegar það fer inn á þyngdarsvið jarðar. Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, segir þó að engin hætta sé á því að smástirnið rekist á jörðina.

Gert er ráð fyrir því að smástirnið fari framhjá jörðinni á föstudaginn í næstu viku, 15. febrúar. „Braut stirnisins er mjög vel þekkt,“ hefur fréttavefur CNN-sjónvarpsins eftir Don Yeomans, sérfræðingi NASA í hnöttum sem nálgast jörðina. „Við vitum nákvæmlega hvert það fer og það getur ekki rekist á jörðina.“

Smástirnið er 45 metrar að þvermáli, að því er fram kemur á vef NASA. Talið er að stjörnuskoðarar í Austur-Evrópu, Asíu og Ástralíu geti séð stirnið með sjónaukum.

Annað smástirni, Apófis, fór framhjá jörðinni í janúar. Smástirnið fannst árið 2004 og fyrstu athuganir bentu til þess að líkurnar á því að það rækist á jörðina árið 2029 væru um 2,7%. Frekari athuganir leiddu ljós að hættan á árekstri árið 2029 er miklu minni en talið var. Hins vegar eru líkurnar á því að smástirnið rekist á jörðina 13. apríl 2036 taldar vera einn á móti 250.000.

Apófis er líklega um 270 metrar að þvermáli. Ef smástirnið rækist á jörðina myndi orkan, sem leystist úr læðingi, samsvara um 25.000 kjarnorkusprengjum á stærð við þá sem eyddi Hiroshima.

Tvær halastjörnur fara framhjá jörðinni í ár. Önnur þeirra, halastjarnan PANSTARRS, verður björtust 8. til 12. mars og gæti þá orðið sýnileg berum augum frá norðurhveli jarðar. Talið er að hægt verði að sjá hina halastjörnuna, ISON, með berum augum í lok nóvember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert