Lögmaður bandaríska tónlistarmannsins Chubby Checker hefur höfðað mál á hendur tæknifyrirtækinu Hewlett-Packard vegna smáforrits sem ber nafn söngvarans. Tilgangur forritsins er að segja til um lengd getnaðarlima karlmanna.
Willie Gary, sem er lögmaður Checkers, höfðaði málið á hendur HP og dótturfyrirtækisins Palm, en Gary segir að fyrirtækin hafi ekki beðið söngvarann um leyfi.
Málið var höfðað fyrir alríkisdómstól í Flórída og krefst Chubby Checker 500 milljóna dala í skaðabætur, sem samsvarar um 65 milljörðum króna.
Gary segir að smáforritið hafi sett blett á vörumerkið Chubby Checker sem söngvarinn hafi unnið hörðum höndum að að viðhalda í hálfa öld.
„Þessi málsókn snýst um að vernda heiður og arfleifð manns sem hefur í áraraðir unnið hörðum höndum að gerð tónlistar og hefur komist á stall sem einn af merkustu tónlistarmönnum allra tíma,“ segir Gary.
„Við getum ekki setið auðum höndum og fylgst með tæknirisa eða einhverjum öðrum misnota nafn eða líkindi saklausra einstaklinga í því augnamiði að græða milljónir dala,“ bætti lögmaðurinn við.
HP hefði markaðssett forritið í nafni Chubby Checker í þeim tilgangi að hagnast og segir Gary að það sé ekki réttlætanlegt.
Umrætt smáforrit er að finna á vefsíðu fyrir tölvubúnað frá Palm. Það er sagt geta sagt til um lengd getnaðarlima karlmanna með því að mæla skóstærð þeirra.
Checker er 71 árs gamall. Hann er þekktastur fyrir smellinn the „The Twist“ sem gerði allt vitlaust á sjöunda áratugnum.