Tölvuþrjótar réðust á Facebook

AFP

Tölvuþrjótar gerðu árás á tölvukerfi Facebook í síðasta mánuði að sögn forsvarsmanna samskiptavefjarins. Þeir segja ennfremur að ekki sé vitað til þess að upplýsingum um notendur Facebook hafi verið stofnað í hættu.

Facebook segir að óæskilegt forrit hafi komist inn í tölvur fyrirtækisins sem rekja megi til sýktrar vefsíðu fyrirtækis sem þróar hugbúnað fyrir farsíma.

Þá segir Facebook að allar sýktar tölvur hafi verið hreinsaðar. Í framhaldinu hafi fyrirtækið gert lögregluyfirvöldum viðvart og hafið umfangsmikla rannsókn. Sú rannsókn stendur enn yfir.

Tölvuþrjótarnir nýttu sér áður óséðan galla í Java-hugbúnaði, sem kemur úr smiðju Oracle. Facebook hafði samband við Oracle sem gaf út nýja viðbót 1. febrúar.

Svo virðist sem tölvuþrjótanir hafi beint sjónum að tæknifyrirtækjum og þeim sem vinna við hugbúnaðargerð miðað við þá vefsíðu sem þeir kusu að sýkja með hinu óæskilega forriti.

Facebook tekur fram að það hafi ekki verið eina fyrirtækið sem varð fyrir þessari árás. „Það er ljóst að aðrir urðu einnig fyrir árás og að laumast var inn til þeirra nýverið,“ segir í yfirlýsingu frá Facebook.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert