Nærri 2.500 Íslendingar deildu og dreifðu á 17 klukkustundum platleik á samskiptavefnum Facebook sem settur var upp í þeim tilgangi að sýna fram á hversu auðtrúa fólk getur verið. Á síðu leiksins stóð skýrt: „Facebooksíða sem þykist gefa frítt stuff“.
Á vefsvæðinu Markaðssetning á Internetinu er greint frá leiknum og bréf birt frá aðstandendum platleiksins. Þar segir að þeir hafi sett upp leikinn eftir að hafa skoðað þrjá aðra sem Íslendingar hafa deilt og dreift undanfarna daga. Enginn þeirra leikja gaf upp hvaða fyrirtæki stæði að baki og er því líklega einnig um platleiki að ræða, þar sem enginn vinningur er í boði.
„Facebook er frábær miðill og góður til að miðla fréttum og til að fylgjast með vinum og fjölskyldu. Vafasöm fyrirtæki, hrekkjalómar og auðtrúa fólk eru á góðri leið með að eyðileggja þessa upplifun fyrir okkur,“ segja aðstandendur platleiksins sem trúa varla hversu margir tóku þátt. „Við skulum því eyða auka 10 sekúndum í að smella fyrst á facebooksíðuna sjálfa til að átta okkur á hver stendur á bak við leikinn áður en við deilum einhverri vitleysu. Munum í þessu sem öðru: Ef það er of gott til að vera satt, þá er það líklegt ósatt.“