Lesblinda hefur áhrif á ökuhæfni

mbl.is/Sigurður Bogi

Dyslexía, eða lesblinda, hefur áhrif á færni fólks til að stjórna ökutæki. Ungt fólk með lesblindu bregst á svipaðan hátt við ýmsum áreitum í umferðinni og fólk á sjötugsaldri. Þetta sýna rannsóknir Hermundar Sigmundssonar, íslensks prófessors í sálfræði í Noregi.

Hermundur rannsakaði viðbrögð fólks í tilteknum og tilbúnum aðstæðum sem skapast geta við akstur og niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar nýverið í virtu vísindatímariti.

Í ljós kom að þegar áreiti er mikið og ökumaður þarf að taka nokkrar ákvarðanir á sama tíma, er talsverður munur á viðbrögðum 18 ára gamalla ökumanna eftir því hvort þeir eru með lesblindu eða ekki. Ungu ökumennirnir sem eru lesblindir hafa svipaða viðbragðshæfni undir stýri og þeir sem eru 65 ára eða eldri.

„Í stuttu máli sagt, þá eru niðurstöðurnar þær að þeir sem eru með lesblindu eiga í nokkrum vandræðum með viðbrögð þegar þeir eru að aka bíl. Þeir sem eru eldri en 65 ára eru svo á sama stigi, en viðbrögðin hægjast verulega með aldrinum. Þegar aðstæður verða flóknari við aksturinn og áreitin fleiri, þá verða viðbrögðin seinni  hjá þessum tveimur hópum,” segir Hermundur.

Mikilvægt að vera meðvituð um þetta

Hann segir að skoða þurfi hvernig hægt væri að bregðast við þessum niðurstöðum. „Það er enginn að segja að þó að þessar niðurstöður liggi fyrir, þá eigi að banna fólki með lesblindu að keyra bíl. Síður en svo. En það er mikilvægt fyrir það og aðra að vera meðvituð um þetta. Það sama gildir um eldra fólk. Núna þarf að rannsaka; hvar vandamálið liggur. Er það í sjónskyninu eða í almennri taugastarfsemi? Það er næsta rannsókn. En í þessu sambandi hefur verið bent á að það sé heppilegra fyrir aldraða og þá sem eru með lesblindu að keyra sjálfskipta bíla, því þá eru færri hlutir sem þarf að hugsa um við aksturinn,” segir Hermundur.

Hermundur Sigmundsson prófessor í Þrándheimi.
Hermundur Sigmundsson prófessor í Þrándheimi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert