Mesta mælda sandrok jarðar?

Öskurok undir Eyjafjöllum.
Öskurok undir Eyjafjöllum. mbl.is/RAX

Líklega er hvassviðri sem gerði á Suðurlandi í september 2010 hafi leitt til mestu efnisflutninga sandefna með vindi sem hefur mælst á jörðinni. Þetta segir í grein fjögurra vísindamanna sem rannsakað hafa afleiðingar þessa veðurs.

Dagana 14. – 15. september 2010 gerði mikið hvassviðri á heiðum við Eyjafjallajökul. Meðalvindhraði fór yfir 30 m/sekog hviður voru allt að 39 m/sek. Þessi stormur olli gríðarlegum efnisflutningi. Allt að 12 tonn efnis fluttust á lengdarmetra (tonn m-1).

Nú er komin út grein sem fjallar um þessar mælingar á gjóskufoki í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli vorið 2010. Mælingarnar fóru fram á Skógaheiði á vegum Landgræðslu ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands. Líklega er hér um að ræða einn mesta efnisflutning sandefna með vindi sem hefur mælst á jörðinni.

Greinin (An extreme wind erosion event of the fresh Eyjafjallajökull 2010 volcanic ash) birtist í „Scientific Reports“ sem gefið er út af Nature útgáfunni. Höfundar eru Ólafur Arnalds, Elín Fjóla Þórarinsdóttir, Jóhann Þórsson, Pavla Dagsson Waldhauserova og Anna María Ágústsdóttir, starfsmenn Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins.

Greinina má finna á síðunni nature.com

Á heimasíðu Landgræðslunnar segir  að gjóskufok í kjölfar eldgosa hafi oft haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslensk vistkerfi í tímans rás, fyrir utan hvað fokið er heilsuspillandi fyrir íbúa á foksvæðum. Greinin undirstrikar nauðsyn þess að efla gróðurhulu á gosbeltunum til að draga úr gjóskufoki af völdum eldgosa og hversu mikilvægt það er að taka hugsanlegt gjóskufok með í reikninginn þegar vá af völdum eldgosa er metin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert