Hópur vísindamanna sagði í dag frá því að þeir hefðu uppgötvað leifar þess sem talið er hafa verið lítið meginland á forsögulegum tímum á hafsbotni í Indlandshafi þar sem nú er Máritíus.
Jarðflekinn, sem vísindamennirnir kalla Máritía, myndaðist að líkindum fyrir 61-83 milljónum ára, eftir að eyjan Madagaskar klofnaði frá Indlandsskaga. Á endanum hafi Máritía þó klofnað og kaffærst undir þykku hraunlagi.
Niðurstöður eru birtar í tímaritinu Nature Geoscience í dag. Vísindamennirnir greindu sandstrendur á Máritíus, og fundu fornt sirkon, þ.e. tegund steinkristalla, sem eru á bilinu 660 milljóna til eins milljarðs ára gamlir.
Vísindamennirnir segja þetta merkilega uppgötvun, þar sem steinkristallarnir hafi verið grafnir í sandi sem myndaðist nýlega, á jarðfræðilegan mælikvarða, eða fyrir um 9 milljónum ára.
„Sirkonið bendir til þess að undir eyjunni (Máritíus) séu leifar lítils, forsögulegs meginlands og að brot úr því hafi færst upp á yfirborðið í nýlegum eldhræringum,“ segir í grein vísindamannanna.
Þeir telja að á hafsbotni í Indlandshafi kunni að vera víða að finna brot úr fornum landmassa sem áður hafi tilheyrt risameginlandinu Pangeu sem klofnaði upp og varð að þeim heimsálfum sem við þekkjum í dag.
Pangea byrjaði að klofna fyrir um 200 milljónum ára svo úr varð Gondwanaland í suðri og Laurasía í norðri. Gondwana varð síðar að Madagaskar, Ástralíu, Suðurskautslandinu og Indlandi fyrir 80 til 130 milljónum ára.
Nýja rannsóknin bendir til þess að Máritía hafi losnað frá þegar Madagaskar og Indland klofnuðu. Seychelles-eyjar gætu líka hugsanlega verið sjáanlegar leifar Máritíu.
Nánar er hægt að fræðast um rek meginlandanna síðustu 225 milljón árin á Vísindavefnum.