Skilin á milli spjaldtölvu og snjallsíma verða sífellt óskýrari. Á snjallsímaráðstefnunni „Mobile World“ í Barselóna á Spáni vöktu svokallaðir „Phablets“, sem mætti kalla „spjaldsíma“ á íslensku, mikla athygli.
Tækið minnir helst á snjallsíma í yfirstærð og einn helsti framleiðandi þessara tækja er kínverska tæknifyrirtækið Huawei.
Þeir sem reynsluna hafa segja stærð spjaldsímans vissulega vera nokkuð til trafala til að byrja með. Ekki sé hægt að stinga honum í vasann, en kostirnir yfirgnæfi þennan löst og stærðin venjist býsna fljótt.
Tækið henti til dæmis einkar vel til þess að lesa af kortum og til þess að horfa á ýmiss konar margmiðlunarefni.
Eftir miklu er að slægjast fyrir framleiðendur slíkra tækja. Á síðasta ári seldust meira en 120 milljónir spjaldtölva í heiminum, það var meira en 50% aukning frá árinu á undan. Þá er búist við því að um milljarður snjallsíma muni seljast í ár.