Í fornsögum, meðal annars í Ólafs sögu helga frá þrettándu öld, segir frá því að víkingar hafi notað sérstaka kristalla, „sólstein“, sem siglingatæki; til að halda stefnu á langsiglingum sínum.
Slíkir steinar hafa aldrei fundist í fornleifum frá víkingatíma en íslenskur silfurbergskristall sem fannst í flaki bresks skips sem fórst við Frakklandsstrendur 1592 þykir hins vegar renna stoðum undir kenninguna um steinana sem siglingatæki víkinga.
Kristallinn fannst í flaki herskips frá tímum Elísabetar fyrstu Englandsdrottningar sem sökk skammt frá Ermarsundseyjunni Alderney. Þóttu kringumstæður í flakinu benda til þess að hann hafi verið eitt af siglingatækjum skipsins, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarsveitar frá háskólanum í Rennes í Frakklandi.
Með efnagreiningu á steininum úr Alderneyskipinu í Rennes hefur tekist að sanna, að hann er íslenskt silfurberg, en það var eftirlætisberg í sólsteina víkinga. Leiðtogi vísindateymisins, Guy Ropars, segir í tímariti konunglega breska vísindafélagsins, að kristallar á borð þann sem fannst í flakinu við Alderney „gætu í raun og veru hafa verið notaðir sem nákvæmir sólsteinar til að auðvelda siglingar til forna“.
Alderneykristallinn væri gagnslaus í dag þar sem hann hefur svarfast af sandi á sjávarbotni í hundruð ár og orðinn „skýjaður“ af völdum efnahvarfa. En á sínum tíma hefur sæfarendum gagnast hann.
Íslenskur silfurbergssteinn er þeirrar náttúru að sé horft á andlit í gegnum hann birtast tvö vegna síunar ljóssins. Sé honum hins vegar snúið uns aðeins eitt andlit sést þá er vitað að hann bendir í austur-vestur. Þessir ljóssíunareiginleikar silfurbergsins nýtast meira að segja þótt lítil sól sé vegna skýjamyndunar, það hafði vísindateyminu við háskólann í Rennes tekist að sanna í fyrri rannsókn.
Evrópskir sæfarendur náðu ekki fullum tökum á seguláttavita fyrr en undir lok 16. aldar. Segja vísindamennirnir í Rennes, að kristallinn hafi verið um borð í herskipinu í þeim tilgangi að „leiðrétta“ kompásskekkjur seguláttavitans.
Fjallað hefur verið um mál þetta í vikunni, meðal annars á vef konunglega breska vísindafélagsins og einnig hér.