Einhverjir gætu hafa fundið fyrir hægari virkni netsins núna í kvöld eftir eina stærstu netárás sem gerð hefur verið. Árásinni var einkum beint gegn Spamhaus, þýskri síðu, sem reynir að stemma stigu við ruslpósti.
Árásirnar hófust reyndar í síðustu viku eftir að Spamhaus setti vefsíðuna Cyberbunker á svokallaðan svartan lista yfir aðila sem senda ruslpóst um víða veröld. Aðstandendur síðunnar voru afar óánægðir með þetta og töldu sig ekki eiga heima á slíkum lista.
Ekki hefur tekist að færa sönnur á að hver beri ábyrgð á árásunum eða að Cuberbunker eigi þarna hlut að máli, en leitt hefur verið líkum að því að svo kunni að vera og að austur-evrópskir tölvuþrjótar hafi verið fengnir til aðstoðar.
Talið er að árásirnar hafi haft áhrif á netnotkun mörg hundruð milljóna manna, netsamband hafi verið hægara en vant er, burtséð frá því hvaða síður heimsóttar eru og hafa tölvusérfræðingar notað orðið „Bazooka-árás“ til að lýsa henni.