Næstum einn af hverjum fimm bandarískum drengjum á framhaldsskólaaldri hefur verið greindur með ofvirkni og athyglisbrest (ADHD). Greiningum hefur fjölgað verulega undanfarinn áratug, að því er fram kemur í umfjöllun The New York Times.
Talið er að 11% barna á skólaaldri í Bandaríkjunum hafi verið greind með ADHD en hlutfallið var áður talið vera í kringum 3-7%. The New York Times fékk gögn hjá stofnun um varnir gegn sjúkdómum og um forvarnir (e. Center for Disease Control and Prevention, CDC) en hún hafði framkvæmt símakönnun hjá 76 þúsund foreldrum á árunum 2011-2012.
Í umfjöllun blaðsins segir að 15% drengja á skólaaldri hafi fengið greininguna, samanborið við 7% stúlkna á sama aldri. Hlutfallið hækki þegar litið sé einungis til unglinga á framhaldsskólaaldri, þá sé það 19% hjá drengjum og 10% hjá stúlkum.
Talið er að 6,4 milljónir barna á aldrinum 4-17 ára hafi fengið ADHD-greiningu sem er 16% aukning síðan árið 2007 en 53% aukning sé litið 10 ár aftur í tímann. Sérfræðingar sem blaðið ræddi við sögðu tölurnar sláandi og lýstu yfir áhyggjum af hugsanlegri misnotkun lyfja við ADHD. „Réttu lyfin við ADHD, gefin rétta fólkinu, geta skipt sköpum. Því miður virðist sem misnotkun á lyfjunum fari hratt vaxandi,“ segir Thomas Frieden, forstjóri CDC. Þá lýsir James Swanson, prófessor í geðlækningum við Florida International University og sérfræðingur í rannsóknum á ADHD, yfir áhyggjum yfir fjölda þeirra sem hafa greinst með ADHD. „Það er ekki möguleiki að einn af hverjum fimm drengjum á framhaldsskólaaldri sé með ADHD. Ef við meðhöndlum börn, sem eru ekki með röskunina, með lyfjum þá mun hluti þeirra þurfa að glíma við fyrirsjáanlega erfiðleika, sum munu enda með fíknivandamál.“
The New York Times bendir einnig á það í umfjöllun sinni að sala á lyfjum við ADHD hafi meira en tvöfaldast undanfarin ár. Árið 2007 nam hún fjórum milljörðum dala en árið 2012 níu milljörðum.