Pirate Bay með íslenskt lén

Stærsta skráadeilingasíða heims, Pirate Bay, hefur verið landflótta um nokkurt skeið eftir að henni var úthýst frá Svíþjóð í byrjun mars. Í millitíðinni heyrðust fréttir um að síðan hefði fengið inni bæði í Norður-Kóreu og á Grænlandi. Nú er Pirate Bay hinsvegar komið með íslenskt lén, thepiratebay.is.

Tæknisíðan Torrent Freak segist hafa fengið þær upplýsingar frá lénaskrá Íslands, þ.e. ISNIC, að Pirate Bay sé nú komin í örugga höfn og ekki sé frekari hætta á því að síðan verði svipt léninu, nema dómstólar grípi inn í.

Misvísandi fréttir hafa heyrst af flótta Pirate Bay milli léna, frá .se til .kp og nú síðast .gl, á Grænlandi. Þar fékk sjóræningjasíðan ekki sérlega hlýðlegar viðtökur og var svipt léninu innan tveggja daga.

Samkvæmt Torrent Freak tók umferð um Pirate Bay að beinast gegnum Ísland snemma í morgun. Þetta sé áhugavert val hjá forsvarsmönnum Pirate Bay, því Íslendingar hafi markað sér þá stefnu að bjóða öruggt hæli fyrir frjálsa tjáningu.

Óljóst sé hinsvegar hvort starfsemi Pirate Bay falli með réttu undir skilgreiningu tjáningarfrelsis, en talsmenn ISNIC segja í samtali við síðuna að ekki standi til að koma öðru vísi fram við Pirate Bay en hverja aðra síðu sem hafi lén hér á landi.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem umdeilanlegar síður taka upp íslenskt lén eftir að hafa verið úthýst annars staðar, því skemmst er að minnast þess að Wikileaks átti bækistöð á Íslandi árið 2010.

Allt útlit er fyrir að sjóræningjaflóinn svo nefndi verði við Ísland um óákveðinn tíma, eða þar til annað kemur í ljós.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert