Landnemar í Jamestown, þar sem fyrstu landnemar Norður-Ameríku hófu búskap, stunduðu mannát samkvæmt því sem nýjustu rannsóknir herma og greint var frá í dag. Vísindamenn rannsökuðu bein 14 ára gamallar stúlku og komust að þessari staðreynd.
„Þegar landnemarnir frá Bretlandi máttu þola hungursneið veturinn 1609-1610, þar sem um 80% nýbúanna létust, virðist sem sumir hafi haldið í sér lífinu með því að borða heilann úr látnu barni,“ segir Douglas Owsley, mannfræðingur hjá Smithsonian safninu.
„Örvæntingin og yfirþyrmandi aðstæður sem landnemarnir þurftu að horfast í augum við veturinn 1609-1610 endurspeglast í því hvernig líkami stúlkunnar er leikinn,“ sagði Owsley
„Bein stúlkunnar sýna óeðlilega áverka og mynstraða skurði og meðferð sem sýnir algjöran skort á þekkingu af því að úrbeina,“ sagði hann. Hvað sem því líður er ljóst að ætlunin var að sundurlima líkamann, fjarlægja heilann og allt hold til neyslu.
Beinin fundust árið 2012 og þóttu þá strax athygli verð sökum þess hve brotin þau voru. Tennur hennar og hlutar af höfuðkúpu voru taldir hafa álíka meðferð og slátruð hross eða hundabein.
Líkamsleifarnar eru fyrsta sönnun þess að mannát hafi átt sér stað í Jamestown. Fræðimenn hafa lengi giskað á að þetta kunni að hafa átt sér stað vegna óvenju erfiðra skilyrða sem landnemarnir máttu þola eftir komuna til svæðisins.
Nýlendan var numin af yfir 100 landnemum árið 1607. Þeim fækkaði í 38 á fyrstu níu mánuðunum vegna hungurs, þurrka og sjúkdóma. Þetta gerði landnemana algjörlega háða skipakomum.
Ritaðar heimildir eru til um mannát á svæðinu. Smithsonian tímaritið birti bréf eftir George Percy, forseta Jamestown, á þeim tíma sem hungur var allsráðandi.
Þar kom fram hvernig landnemarnir fóru bráðlega að leggja sér hross til munns og aðrar skepnur áður en þeir fóru að éta hunda, ketti, rottur, mýs og á endanum fóru þeir í grafir manna.
Í bréfinu lýsir hann því hvernig fólk fór að verða fölt og að neyðin hafi orðið til þess að ekkert var til sparað til að halda lífi í fólkinu, jafnvel hafi fólk gert hluti sem ekki nokkrum hefði áður dottið í hug, eins og að grafa upp lík og leggja sér til munns. Þá hafi sumir sleikt upp blóð af veiku fólki til að fá einhverja næringu.
Ekki liggur neitt fyrir um það hverjir átu stúlkuna, eða úr hverju hún lést. Þó eru vísbendingar um að fleiri en einn virðist hafa átt við lík hennar þar sem sum beinin beri þess merki að faglega hafi verið unnið á þeim til móts við önnur óvandvirkari, meðal annars þess sem tók úr henni heilann.
„Þetta fólk var í algjörum neyðar aðstæðum. Þannig að allt kjöt sem var mögulegt að komast yfir var notað,“ segir Owsley við Smithsonian tímaritið. AFP-fréttastofan greinir frá.