Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur samþykkt notkun á Samsung-snjallsímum sem nota sérstaka öryggisútgáfu af Android-stýrikerfinu. Þetta er upphafið að ferli sem miðar að því að útbúa bandaríska hermenn með ólíkar gerðir af fjarskiptabúnaði.
Greint er frá þessu á vef breska ríkisútvarpsins. Þar segir að búist sé við að bandaríska varnarmálaráðuneytið muni í lok þessa mánaðar einnig leggja blessun sína yfir aðra síma sem eru búnir Android-stýrikerfinu, sem og síma og spjaldtölvur frá tæknifyrirtækinu Apple.
Þar til nú hafa bandarískir hermenn aðeins fengið að bera slíkan búnað frá Blackberry.
Talsmaður varnarmálaráðuneytisins segir að breytingin nú sé fyrsta skref í að láta hermenn bera margskonar fjarskiptabúnað, bæði snjallsíma og spjaldtölvur, við skyldustörf.
Hann segir að samþykki stjórnvalda muni ekki endilega leiða til þess að fleiri tæki verði pöntuð, fremur að ólíkir hópar innan varnarmálaráðuneytisins geti nú keypt þann tækjabúnað sem hæfir þeirra þörfum.
Um 600.000 snjallsímanotendur eru nú á skrá hjá ráðuneytinu. Um 470.000 þeirra nota síma frá Blackberry. Aðrir nota nú annaðhvort síma með Android-stýrikerfi Google eða iPhone-síma frá Apple til reynslu, en verið er að kanna hvort hægt sé að nota búnaðinn á öruggan máta.