Vinna hefst í dag við að bjarga þýskri herflugvél úr síðari heimsstyrjöldinni af hafsbotni í Ermarsundinu út af strönd Kent-sýslu á Englandi. Um er að ræða sprengjuflugvél af gerðinni Dornier 17 sem skotin var niður í heimsstyrjöldinni og liggur á rúmlega 15 metra dýpi. Gera á vélina upp og hafa hana til sýnis á safni breska flughersins í Hendon að því er segir á fréttavef BBC.
Fram kemur í fréttinni að þrátt fyrir að slíkar flugvélar hafi mikið verið notaðar af þýska flughernum, ekki síst til þess að varpa sprengjum á Bretland, hafi engin slík flugvél varðveist svo vitað sé til. Fyrir fimm árum hafi hins vegar kafarinn og fornleifafræðingurinn Bob Peacock fundið flugvélarflakið út af strönd Kent og í kjölfarið var staðfest að um Dornier 17 væri að ræða og að hún vélin væri nánast í heilu lagi.
Talið er að sprengjuflugvélin hafi verið skotin niður 26. ágúst 1940. Flugmaðurinn reyndi að lenda flugvélinni á sjónum en þegar annar vængurinn rakst í yfirborð hafsins missti hann stjórn á vélinni og hún snerist við. Flugmaðurinn og annar í áhöfninni lifðu af en tveir aðrir létust. Vélin liggur nú á hvolfi á hafsbotninum.
Haft er eftir Peacock að flugvélin sé í mjög viðkvæmu ástandi og að erfitt geti reynst að lyfta henni upp af hafsbotninum. Hér að neðan má sjá myndband af vélinni á hafsbotni.