Eftir 12 mánaða tilraunastarfsemi hefur nú tekist að framleiða fyrsta skotvopnið með þrívíddarprenttækni og það sem meira er: skjóta úr því með góðum árangri.
Bandarísku samtökin Defense Distributed hönnuðu byssuna og segjast ætla að deila „uppskriftinni“ með hverjum sem vill á netinu.
Ekki þarf að koma á óvart að athæfið er afar umdeilt og hefur baráttufólk fyrir hertri byssulöggjöf í Bandaríkjunum gagnrýnt það harðlega. Evrópulögreglan Europol segist sömuleiðis fylgjast grannt með þróun mála.
Sett saman úr plasthlutum
BBC segir frá því að meðlimir Defense Distributed hafi á dögunum skotið af fyrstu byssunni sem framleidd er með þrívíddarprenttækni á skotæfingasvæði í Austin í Texas.
„Ég held að fólk hafi ekki átt von á því að þetta væri hægt,“ segir formaður samtakanna, 25 ára laganemi að nafni Cody Wilson. Þrívíddartækni er ný af nálinni en hefur vaxið ásmegin síðustu misseri og segja sumir að þar sé á ferðinni framtíðin í framleiðsluiðnaði.
Hugmyndin er sú að í stað þess að neytendur leggi leið sína út í búð til að kaupa varning geti þeir hlaðið niður hönnun hluta og prentað þá út í heimahúsi.
Byssan var búin til með þrívíddarprentara sem keyptur var á 8.000 dali, um 930 þúsund krónur, á netmarkaðnum eBay. Hún var sett saman úr nokkrum íhlutum úr ABS plasti. Aðeins skotpinninn er úr málmi.
Frelsi fyrir alla til að eiga byssur
Wilson, sem lýsir sjálfum sér sem netanarkista (e. crypto-anarchist), segir að fyrirætlanir sínar um að dreifa upplýsingum um byssugerðina snúist um frelsi einstaklingsins.
„Það er eftirspurn eftir byssum, það er bara staðreynd. Um allan heim eru ríki sem banna fólki að eiga skotvopn, en nú er það ekki raunin lengur,“ segir Wilson í samtali við BBC. „Ég sé fyrir mér heim þar sem tæknin heimilar þér að eiga nokkurn veginn hvað sem þú vilt. Það er ekki lengur undir stjórnmálamönnum komð.“
Aðspurður hvort hann finni til ábyrgðar gagnvart því að skotvopn kunni með þessu að falla í rangar hendur segir Wilson: „Ég geri mér grein fyrir því að svona tæki er hægt að nota til að skaða annað fólk, til þess er hún, þetta er byssa. En ég tel það ekki ástæðu til að gera þetta ekki.“
Þrívíddarprentun skotvopna lögleg í Bandaríkjunum
Mikið er deilt um skotvopnalöggjöfina í Bandaríkjunum um þessar mundir, í kjölfar fjöldamorðsins í Sandy Hook grunnskólanum í Newtown í Connecticut í vetur. Þingmaðurinn Steve Israel kallaði fyrir stuttu eftir því að bann yrði sett við þrívíddarprentun skotvopna.
Donna Sellers, talskona bandaríska skotvopnaeftirlitsins, segir að samkvæmt lögum sé einstaklingum heimilt að framleiða skotvopn til einkanotkunar, þar með talið með þrívíddarprentun, en sérstakt leyfi þurfi til slíkrar framleiðslu í hagnaðarskyni.
Verði skrefi á undan glæpamönnum
Búast má við því að þrívíddarprentun vaxi ört fiskur um hrygg en eins og svo oft þegar ný tækni verður til líður ekki á löngu þar til hún er notuð til vafasamra hluta. Þannig hefur heyrst að glæpasamtök nýti sér þrívíddarprentun til að framleiða kortalesara, sem komið er fyrir í hraðbönkum til að afrita greiðslukortaupplýsingar.
Victoria Baines, talskona netglæpadeildar Europol, segir þó að enn um sinn séu glæpamenn líklegri til að verða sér úti um skotvopn eftir hefðbundnari leiðum, en fylgjast þurfi náið með öllum tækniframförum.
„Svo mikið vitum við að tæknin þróast mun hraðar en við eigum von á. Með því að vera einu skrefi á undan tækniþróuninni vonumst við til og teljum að við getum líka verið einu skrefi á undan glæpamönnunum.“