Þrátt fyrir að Bandaríkjamenn hefðu frelsað Frakkland undan oki þýskra nasista var reynsla margra Frakka af bandarísku hermönnunum sem komu til landsins í kjölfar innrásarinnar í Normandí ekki að öllu leyti góð. Þvert á móti upplifðu margir þá sem kynlífsóða þorpara sem hafði verið lofað „erótískum ævintýrum“ þegar þeir kæmu til Frakklands í því skyni að fá þá til þess að skrá sig í herinn og taka þátt í stríðinu í Evrópu.
Um þetta er fjallað í nýrri bók eftir bandaríska sagnfræðinginn Mary Louise Roberts sem gefin verður út í næsta mánuði undir heitinu What Soldiers Do: Sex and the American GI in World War II France eða í lauslegri þýðingu Það sem hermenn gera: Kynlíf og bandaríski hermaðurinn í Frakklandi í síðari heimsstyrjöldinni en Roberts er prófessor í sagnfræði við Háskólann í Wisconsin í Bandaríkjunum.
Roberts segir að þetta séu engar fréttir fyrir heimamenn í Normandí en hins vegar komi þetta Bandaríkjamönnum mjög á óvart enda þeir vanir myndinni af bandarísku frelsurunum sem væru kysstir af ungum frönskum konum fyrir að hafa frelsa land þeirra. Það hafi hins vegar ekki alltaf verið svo einfalt. Hún segir að kynlíf, vændi og nauðganir hafi verið daglegt brauð í kjölfar innrásarinnar.
Markmiðið að varpa ljósi á málið frá sjónarhóli Frakka
Roberts segir að fólk hafi varla getað farið í göngutúr í frönskum borgum þar sem bandarískir hermenn hafi verið án þess að sjá fólk einhvers staðar vera að stunda kynlíf. Það hafi verið gert úti um allt. Konur hafi sífellt orðið fyrir áreitni og tilboðum um kynlíf jafnvel þótt þær væru giftar. Þá hafi hundruð nauðgana verið tilkynnt. Svo virðist sem þeldökkir bandarískir hermenn hafi frekar verið kærðir fyrir nauðganir en aðrir sem urðu uppvísir að slíku ofbeldi, að hennar sögn.
Yfirmenn í bandaríska hernum fordæmdu slíka hegðun en gerðu hins vegar lítið til þess að koma í veg fyrir hana að sögn Roberts. Hún segir að ýtt hafi verið undir kynlífsóra bandarískra hermanna heima fyrir, til dæmis í tímaritum þar sem Frakkland var til að mynda nánast auglýst sem eitt stórt vændishús og hermönnum kenndir frasar á frönsku eins og: „Þú ert mjög falleg,“ „Viltu sígarettu?“ og „Eru foreldrar þínir heima?“
Roberts segir markmið sitt með bókinni ekki vera að endurskrifa söguna, bandarískir hermenn hafi vissulega unnið hetjudáðir í Frakklandi og frelsað landið undan oki nasismans, heldur einungis að varpa ljósi á málið frá sjónarhóli Frakka.