Hitakóf, svitaböð um nætur, skapsveiflur - tíðahvörf og fylgifiskar þeirra eru körlum að kenna, segja sérfræðingar við háskóla í Kanada.
Þróunarfræðingar við McMaster Háskólann í Kanada segja að sú tilhneiging karla til að velja yngri maka hafi þýtt að frjósemi hafi orðið tilgangslaus fyrir eldri konur.
Í grein um niðurstöðu sína, sem sagt er frá í frétt á BBC, segja þeir að þetta hafi að lokum leitt til tíðahvarfa hjá konum.
Breskur sérfræðingur hefur gagnrýnt niðurstöðuna og segir þessu hafa verið öfugt farið. Karlar hafi valið yngri konur af því að frjósemi hafi verið minni hjá eldri konum.
Vísindamenn hafa lengi velt því fyrir sér hvers vegna konur séu einu kvendýr jarðar sem ekki getað eignast afkæmi allt líf sitt.
Fyrri kenningar hafa meðal annars snúist um það sem kallað hefur verið „ömmu-einkennið“. Það felur í sér að frjósemi kvenna minnki verulega er þær komast á þann aldur að ólíklegt geti talist að þær geti verið til staðar fyrir barnið á meðan það vex úr grasi. Þær séu hins vegar til staðar til að aðstoða við uppeldi barna yngri kvenna.
Tíðahvörfum sé því ætlað að koma í veg fyrir að konur haldi áfram að eignast börn á þessu æviskeiði sínu.
En kanadíska kenningin gengur út á að þessu hafi verið öfugt farið.
Sjá hér vísindagreinina í heild