Bandarísk stjórnvöld krefja Facebook um upplýsingar

Facebook
Facebook AFP

Stjórnendur Facebook hafa nú greint frá því að fyrirtækið hafi fengið á milli 9.000-10.000 beiðnir frá bandarískum stjórnvöldum um persónuupplýsingar notenda á síðustu sex mánuðum ársins 2012. Bandarísk netfyrirtæki eru nú í vörn eftir lekann um persónunjósnir yfirvalda á netinu.

Beiðnirnar sem Facebook fékk frá stjórnvöldum vörðuðu ýmis mál, allt frá barnshvörfum til smáglæpa og hótana um hryðjuverk. Alls föluðust stjórnvöld eftir upplýsingum um 18.000 til 19.000 notendur miðilsins á þessu 6 mánaða tímabili. Stjórnendur Facebook gefa hins vegar ekki upp í hve mörgum tilfellum stjórnvöldum voru veittar upplýsingarnar eða hve oft beiðnunum var hafnað.

Persónunjósnir í gegnum Facebook, Apple, Microsoft og Yahoo

Í yfirlýsingu frá Facebook segir að fyrirtækið verji persónuupplýsingar notenda sinna „af hörku“. „Reglulega höfnum við slíkum beiðnum, krefjum stjórnvöld um að draga úr kröfum sínum eða veitum þeim einfaldlega mun minni upplýsingar en farið var fram á. Og við svörum þessum kröfum aðeins eins og okkur ber skylda til lögum samkvæmt,“ segir í yfirlýsingu Facebook.

Margir netnotendur eru uggandi eftir upplýsingaleka uppljóstrarans Edwards Snowdens um persónunjósnir Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA) í gegnum fyrirtæki eins og Facebook, Apple, Google, Microsoft og Yahoo.

Talsmenn þessara fyrirtækja hafa keppst við að bera af sér sakir um að NSA hafi beinan aðgang að netþjónum þeirra. Bandarísk stjórnvöld verja framferðið með þeim rökum að með því hafi verið komið í veg fyrir hryðjuverk.

Vilja róa notendur um allan heim

Facebook segist hafa skráð allar beiðnir frá bandarískum varnarmálayfirvöldum og um leið unnt væri að birta þær upplýsingar en stjórnvöld hafi ekki gefið leyfi til þess. Ekkert fyrirtæki hefur enn gert það, en vaxandi þrýstingur er á Bandaríkjastjórn að skýra nánar frá þessum þætti varnarmála ríkisins.

„Þetta er ferli en við vinnum stöðugt að auknu gagnsæi svo notendur okkar um allan heim fái skilið hversu sjaldgæft það er að við séum beðin um að veita persónuupplýsingar með rökum um þjóðaröryggi,“ segir í yfirlýsingu Facebook.

Microsoft, Google, Apple og Facebook er meðal netrisa sem Bandaríkjastjórn …
Microsoft, Google, Apple og Facebook er meðal netrisa sem Bandaríkjastjórn krefur reglulega um persónuupplýsingar í stríðinu gegn hryðjuverkum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert