LAN-mótið HRingurinn verður haldið í Sólinni í Háskólanum í Reykjavík dagana 19. til 21. júlí.
HRingurinn er LAN-mót sem haldið er einu sinni á ári í Háskólanum í Reykjavík á vegum Tvíundar, félags tölvunarfræði-, stærðfræði- og hugbúnaðarverkfræðinema við Háskólann í Reykjavík. Í fyrra mættu um 120 manns og var stemningin að sögn skipuleggjenda mikil.
„Mótið hefur venjulega verið haldið nær byrjun skólaársins. Sólin hefur sennilega ekki verið laus síðar,“ segir Víðir Orri Reynisson, einn skipuleggjenda mótsins. „Ég á von á að það verði meiri þátttaka í ár því við höfum tekið út peningaverðlaunin, en til að fjármagna þau lögðum við ofan á þátttökugjaldið í fyrra. Þá koma vonandi fleiri ungir spilarar sem eru ekki jafnharðir í þessu.“
Hann segir mótið opið öllum, en spilarar undir 18 ára verða að koma með leyfisbréf frá forráðamanni. Áfengi er ekki leyft á mótinu. „Við erum svo með gistiaðstöðu á staðnum ef einhverjir vilja koma með svefnpoka og dýnur,“ segir Víðir.
Víðir á von á að flestir spilara muni keppa á leiknum League of Legends, sem er frír fjölspilunarleikur þar sem tvö fimm manna lið etja kappi. „Í fyrra kepptu langflestir, hátt í 90 manns, í þeim leik og ég á ekki von á að það breytist.“
Í ár verður keppt í leikjunum, Dota 2, Counter-Strike: Global Offensive og Starcraft 2 auk League of Legends eins og áður sagði. Það verða vegleg verðlaun í boði fyrir þá sem lenda í efstu þremur sætunum í hverju móti.
Skráning á mótið fer fram á http://hringurinn.net/